Innlent

Hafa rætt við þá flokka sem þau vilja vinna með

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þau Birgitta Jónsdóttir, Smári McCarthy og Einar Brynjólfsson umboðsmenn Pírata mættu nú rétt fyrir tólf á Bessastaði til fundar með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands, en þau eru fulltrúar þriðja flokksins sem mætir á fund forsetans í dag vegna stjórnarmyndunarviðræðna.

Þau vildu lítið tjá sig við fjölmiðla fyrir fundinn og sögðust ætla að gera það eftir að hafa hitt forseta. Birgitta sagði þó aðspurð að þau hefðu rætt við leiðtoga þeirra flokka sem þau vilja vinna með.

Má ef til vill gefa sér það að það séu allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, þar sem Píratar hafa sagt að þeir vilji ekki vinna með „spillingarflokkum.“ Þá hafa þeir ítrekað útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

Á meðan fjölmiðlamenn smelltu af myndum við borðið í bókhlöðunni ræddu Píratarnir og Guðni um veðrið á Álftanesi. Birgitta sagðist aldrei hafa upplifað það að ekki væri rok á Bessastöðum en í dag er blíðskaparveður og það hreyfist varla hár á höfði. Guðni sagði að það kæmi þó fyrir að það væri logn á nesinu, sérstaklega á morgnana og kvöldin.

Einar Brynjólfsson, Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy koma á Bessastaði í hádeginu.vísir/anton

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×