Innlent

Erfið og flókin stjórnarmyndun framundan

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Forsætisráðherra mætti á Bessastaði í dag til að biðjast lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Hann telur Sjálfstæðisflokkinn sigurvegara kosninganna og eðlilegast sé að formaður þess flokks fái umboð til stjórnarmyndunar. Forseti Íslands ætlar að funda með formönnum flokkanna á morgun og næstu daga.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra mætti á Bessastaði klukkan þrjú og stóð fundur hans og Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands yfir í rúmlega hálftíma.

„Ég held það sé ekki ráðlegt að upplýsa um tveggja manna tal,“ sagði Sigurður Ingi eftir fund þeirra. Aðspurður sagði hann að það væri erfið stjórnarmyndun framundan.

Flókin staða

„Það er nokkuð augljóst í ljósi niðurstöðu kosninganna þar sem að mörgum leiðum hefur verið hafnað. Byltingu Pírata, vinstri stjórn og núverandi ríkisstjórn. Þetta er flókin úrlausnarstaða.“

Við tekur starfsstjórn sem gæti þurft að sitja í einhvern tíma ef stjórnarmyndun mun ganga erfiðlega. „Það þarf að kalla þingið saman innan tíu vikna og við þurfum að setja fjárlög fyrir áramót.“ 

Sjálfstæðisflokkurinn er sigurvegari kosninganna og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins ætti að fá umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar að mati forsætisráðherra.
Forsætisráðherra telur Sjálfstæðisflokkinn sigurvegara kosninganna og rétt sé að Bjarni Benediktsson fái umboð til stjórnarmyndunar. Sjálfstæðisflokkurinn fékk tæplega 30 prósenta fylgi og á fyrsta mann kjörinn í öllum kjördæmum. „Það hlýtur að vera sá flokkur sem er stærstur og leiðir í öllum kjördæmum sem er hinn augljósi sigurvegari,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson. 

Getur hagað málum eftir eigin höfði

Engin ófrávíkjanleg stjórnskipunarvenja hefur löghelgast um að forsetinn þurfi að afhenda stærsta flokknum umboðið og engin venja heldur um að það sé sigurvegari kosninganna. Forsetinn getur í raun hagað þessum málum dálítið eftir eigin höfði og látið þann sem er líklegastur til að mynda stjórn fá umboðið.

Í þessu sambandi má síðan ekki gleymast að flokkarnir gætu myndað stjórn án atbeina forsetans og þá skiptir ekki máli hver fær umboðið.

Þær upplýsingar fengust hjá skrifstofu forsetans í dag að hann hygðist funda með formönnum flokkanna á morgun og að sérstaklega yrði upplýst fyrirfram um dagskrá þess efnis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×