Innlent

Inga syngjandi glöð eftir „hall­æris­lega“ upp­á­komu í Efsta­leiti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Vísir/Stefán
„Það er svo gaman hjá okkur. Við erum búin að vera að syngja,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins sem er með um 3,7 prósent fylgi á fjórða tímanum þegar rúmlega 40 prósent atkvæða hafa verið talin. 

Allt bendir til þess að flokkurinn nái ekki manni á þing en flokkurinn er langstærsti flokkurinn af þeim „litlu“ ef svo má að orði komast. Þeim flokkum sem ekki hafa verið að mælast með þingmann í könnunum undanfarnar vikur.

„Við erum komin til að vera. Við erum komin til að sjá og sigra, Sigurjón digra,“ sagði Inga og vísaði í lagið sem þau höfðu verið að syngja á kosningavökunni í Faxafeni þar sem harðasti kjarninn var enn í góðum gír.

„Þetta er bara byrjunin. Næst eru það sveitarstjórnarkosningar.“

Hallærisileg uppákoma í Efstaleiti

Inga var þó enn ósátt við það að Flokkur fólksins og aðrir af minni flokkunum fengu ekki að vera með í uppgjöri formannanna á RÚV í kvöld. Þangað var hún boðuð ásamt formönnum annarra flokka en var vísað frá eftir klukkustundarbið.

„Að vera búin að sitja þarna í klukkustund, láta blása á sér hárið, gera sig kósý og láta svo einfaldlega sparka sér út. Það er eitthvað sem ég er ekki að kaupa og eitthvað það allra hallærislegasta sem ég hef lent í,“ segir Inga. Auk hennar þurftu formenn Dögunar, Húmanista og Alþýðufylkingar frá að hverfa.

Inga ætlaði þó ekki að staldra við þetta enda gleðin við völd á kosningavökunni í Faxafeni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×