Innlent

Atkvæðin frá Egilsstöðum lent á Akureyri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá talningu atkvæða í Brekkuskóla í kvöld.
Frá talningu atkvæða í Brekkuskóla í kvöld. vísir/svenni
Atkvæðin frá Austurlandi eru komin til Akureyrar og eru núna á leiðinni á talningarstað samkvæmt upplýsingum frá Gesti Jónssyni formanni yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi. Fyrir kosningarnar höfðu menn nokkrar áhyggjur af því hvernig gengi að koma atkvæðum á talningarstað í kjördæminu vegna veðurs, en það hefur gengið vel.

„Flugvélin var að lenda og við erum bara að taka þá kassa inn þannig að lokahnykkurinn fer að koma á þessu,“ segir Gestur í samtali við Vísi.

Hann segir að enn vanti nokkra kassa frá hluta Þingeyjarsýslu og að lögreglan muni keyra með þá á eftir.

„Við erum alveg róleg með það því við höfum haft nóg að telja fram að þessu. Það er sem sagt allt komið frá Austurlandi og við erum svona að fá restina hér á Akureyri og í nærsveitum,“ segir Gestur.

Eins og tölurnar standa núna er Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur með 30,1 prósent atkvæða á landsvísu. Vinstri græn eru næststærst með 16,6 prósent og Píratar þriðji stærsti flokkurinn með 13,8 prósent.

Viðreisn er eini nýi flokkurinn sem nær manni á þing og fær 10,7 prósent en bæði Samfylking og Framsóknarflokkurinn bíða afhroð, Framsókn er með 9,3 prósent og Samfylking með 6,2 prósent. Björt framtíð er svo þar á milli með 7,7 prósent.

Fylgst er með gangi mála alla helgina í Kosningavakt Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×