Innlent

Lítil bjartsýni í svörum Bjarna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom til fundar í Valhöll í hádeginu þar sem Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, kynnti stöðuna í viðræðunum við forystufólk annarra flokka um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Bjarni sagði við fréttamenn fyrir fundinn að hann hygðist ekki tilkynna neitt að svo stöddu. „Við ætlum bara að halda enn einn fundinn. Ég get svo sem sagt í þessum samtölum sem ég hef átt við formenn annarra flokka þá hafa línurnar svona smám saman verið að skýrast. Það er eftir sem áður staðan að það er ekki alveg auðsótt að mynda ríkisstjórn,“ sagði Bjarni sem útilokar ekki að honum muni ekki takast að mynda trausta ríkisstjórn.

Sjá einnig: Bjarni segir málin skýrast í þessari viku

„Ég hef bundið vonir við þann tón sem hefur verið sleginn af mörgum að þeir vilji vinna með þá niðurstöðu sem kom úr kosningunum, að það sé ákall um að menn sýni samstarfsvilja, en mér finnst menn hafa gert fullmikið af því í næsta orði að útiloka ýmsa valkosti og það þrengir stöðuna mjög mikið,“ sagði Bjarni ennfremur.

Vika er liðin síðan formaður Sjálfstæðisflokksins fékk stjórnarmyndunarumboðið frá forseta Íslands og hefur Bjarni sagt að hann vilji að eiginlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjist í þessari viku.

Viðtalið við Bjarna, sem og umræður um stöðu mála í stjórnarmyndunarviðræðunum, má heyra í spilaranum hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×