Innlent

Píratar farnir af fundi Bjarna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Píratar mæta á fund Bjarna í dag.
Píratar mæta á fund Bjarna í dag. vísir/ernir
Fundi þeirra Birgittu Jónsdóttur, Einars Brynjólfssonar og Smára McCarthy þingmönnum Pírata með Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins lauk nú rétt fyrir hálfþrjú. Hann stóð því í einn og hálfan tíma.

Í samtali við fréttastofu eftir fundinn sagði Smári að þau hefðu fyrst og fremst verið að spjalla um stóru málin og svo hvernig bæta megi vinnubrögðin á þingi.

Þá sagði Smári jafnframt að ekkert hafi breyst í afstöðu flokksins til þess að starfa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn; það ætli Píratar ekki að gera.

Núna klukkan 15 mæta þeir Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar og Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar saman til fundar við formann Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni fundar nú með formönnum allra þeirra flokka sem sæti eiga á þingi í kjölfar þess að hann fékk umboð til þess að mynda ríkisstjórn frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands í gær. Bjarni hitti Katrínu Jakobsdóttur formann Vinstri grænna í morgun og formann og varaformann Framsóknar síðdegis í gær.


Tengdar fréttir

Óttarr og Benedikt munu mæta saman til fundar við Bjarna

Þeir Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar og Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar munu mæta saman til fundar við Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins í Ráðherrabústaðnum síðdegis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×