Tónlist

Hárprúð Hjaltalín heillaði á fyrsta degi Airwaves

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigríður Thorlacius og Högni slógu ekki feilnótu með Hjaltalín í gær.
Sigríður Thorlacius og Högni slógu ekki feilnótu með Hjaltalín í gær. vísir/ernir
Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hófst með látum í gær. Hljómsveitin Hjaltalín er ein af þeim sveitum sem troða upp utandagskrár á hátíðinni í ár, eða á því sem kallað er Off Venue, og hélt hún tónleika á Bryggjunni Brugghúsi úti á Granda í gærkvöldi.

Um einu tónleika sveitarinnar á Airwaves var að ræða. Því var vel mætt á Bryggjuna og urðu áhorfendur ekki fyrir vonbrigðum ef marka mátti stemninguna og fagnaðarlætin eftir seinasta lag sveitarinnar.

Það var vel mætt á Bryggjuna Brugghús í gær á fyrsta degi Iceland Airwaves.vísir/ernir
Eflaust eru ekki margar íslenskar hljómsveitir hárprúðari en Hjaltalín og er fyrirsögnin vísun í það enda bæði söngvarinn Högni og bassaleikarinn Guðmundur Óskar með fallegt sítt hár. Þá má segja það sama um söngkonuna Sigríði Thorlacius en aðalmálið er auðvitað tónlistin.

Sveitin byrjaði á einu vinsælasta lagi sínu Crack in a Stone við góðar undirtektir en það er, líkt og flest lögin sem hljómuðu á Bryggjunni í gær, af þriðju plötu sveitarinnar Enter 4.

Högni söng lagið We Will Live for Ages af mikilli innlifun og skellti sér út í áhorfendaskarann.vísir/ernir
Næst á lagalistanum var einnig af Enter 4, lagið Letter To [...], en lag númer þrjú heitir Baroness og er af nýrri plötu sveitarinnar sem stefnt er á að komi út á næsta ári. Ekki verður sagt annað en að lagið lofi góðu um það sem koma skal en að því loknu var komið að öðru lagi af Enter 4 sem heitir Myself.

Næstseinasta lagið var annað gríðarlega vinsælt lag sem kom út sem smáskífa í fyrra, We Will Live for Ages. Högni hvarf á tímabili af sviðinu og fór út á gólf þar sem hann söng af mikilli innlifun á meðal ánægðra áhorfenda. Undirrituð hélt þá að hápunkti tónleikanna væri náð en það var ekki svo þar Hjaltalín sýndi allar sínar bestu hliðar í lokalaginu, We. 

Áhorfendur urðu ekki fyrir vonbrigðum á tónleikum Hjaltalín í gær.vísir/ernir
Högni og Sigríður nutu sín bæði vel í söngnum og það var hrein unun að hlusta á þau, ekki síst í blálokin í rólegum lokakafla en We er kröftugt lag þar sem nokkuð mæðir á trommaranum, Axeli Haraldssyni, og átti hann stórleik.

Það er eiginlega synd að Hjaltalín komi ekki aftur fram á Airwaves í ár því þeir sem misstu af í gær misstu bara af frekar miklu. Hljómsveitin hefur ekki aðeins á að skipa framúrskarandi söngvurum heldur einnig afbragðs hljóðfæraleikurum og það skilaði sér heldur betur á Bryggjunni.

Flest laganna voru af þriðju plötu Hjaltalín, Enter 4.vísir/ernir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.