Innlent

Katrín: Skýrist á morgun hvort formlegar viðræður hefjast

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Þingflokkur Vinstri grænna hóf fund sinn eftir fund flokkanna fimm.
Þingflokkur Vinstri grænna hóf fund sinn eftir fund flokkanna fimm. Vísir/LVP
Fundi Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar lauk nú rétt fyrir fjögur.

Hljóðið í formönnunum sem sátu fundinn var gott að loknum fundi. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í samtali við fréttastofu að fundi loknum að hópurinn ætli að funda aftur á morgun og eftir þann fund muni línur skýrast hvort flokkarnir hefji formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

Fjölmennt var á fundinum í morgun en alls voru fimmtán fulltrúar flokkanna fimm þar samankomin.

Ásamt Katrínu voru Björn Valur Gíslason, varaformaður VG og Svandís Svavarsdóttir fulltrúar Vinstri grænna. Fyrir hönd Bjartrar Framtíðar sátu fundinn Óttarr Proppé, Nichole Leigh Mosty og Theodóra S. Þorsteinsdóttir. Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sat fundinn ásamt fyrirrennara sínum Oddnýju G. Harðardóttur og Guðjóni Brjánssyni.

Fyrir hönd Viðreisnar voru þau Benedikt Jóhannesson formaður flokksins, Jóna Sólveig Einarsdóttir varaformaður og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þá sátu fundinn Birgitta Jónsdóttir, Smári McCarthy og Einar Brynjólfsson fyrir hönd Pírata.

Þeir sem fréttastofa náði tali af fyrir fundinn voru hóflega bjartsýnir. Katrín mun gera forseta Íslands grein fyrir stöðunni í viðræðunum á mánudag eða þriðjudag. En þegar hann veitti henni umboðið sagði hann að Katrín yrði að hafa hraðar hendur þótt ekki mætti ana að neinu við myndun ríkisstjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×