Innlent

Katrín ekki með neinar „sérstakar væntingar“ fyrir fundinn með Guðna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, kom til fundar við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, á Bessastöðum núna klukkan 13.

Hún ræddi stuttlega við fjölmiðlamenn áður en hún fór inn á fundinn. Aðspurð hvaða væntingar hún hefði fyrir fundinn sagðist hún ekki hafa neinar „sérstakar væntingar,“ en fastlega er búist við því að Guðni veiti Katrínu umboð til að mynda nýja ríkisstjórn. Það yrði þá í fyrsta skipti sem Vinstri græn myndu fá stjórnarmyndunarumboðið.

„Eigum við ekki bara að fara yfir þetta eftir fundinn?“ spurði Katrín þau Heimi Má Pétursson, fréttamann Stöðvar 2, og Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann RÚV, sem biðu eftir henni fyrir utan Bessastaði.

Katrín kvaðst ekki vera búin að undirbúa daginn í dag eitthvað sérstaklega. Hún sagði stöðuna varðandi nýja ríkisstjórn hafa verið flókna allan tímann.

„Þetta er talsvert úrlausnarefni.“

Katrín fór svo inn til fundar við Guðna, skrifaði í gestabókina eins og vera ber og settist svo inn í bókastofuna með forsetanum þar sem þau voru mynduð í bak og fyrir.

Eftir fund þeirra mun Guðni ræða fjölmiðlamenn og síðan Katrín, en hér má fylgjast með beinni útsendingu Vísis frá Bessastöðum.


Tengdar fréttir

Fimm flokka stjórn frá vinstri að miðju fyrsti kostur

Katrín Jakobsdóttir fer á fund forseta í dag og fær formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Fyrsti kostur Katrínar er fimm flokka stjórn án núverandi stjórnarflokka. Umræddir flokkar segjast tilbúnir ef málefnasamstaða næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×