Innlent

Verkfalli allra sjómanna frestað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Grindvískir sjómenn frestuðu verkfalli í kvöld.
Grindvískir sjómenn frestuðu verkfalli í kvöld. Vísir/vilhelm
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur undirrituðu í kvöld nýjan kjarasamning til tveggja ára. Verkfalli félagsmanns SVG hefur því verið frestað frá og með klukkan 14 í morgun, og hafa þar með öll sjómannafélög frestað verkföllum sínum.

„Efni nýs samnings er svipað og Sjómannasambandið skrifaði undir í kvöld, en með nokkrum viðaukum sem samningsaðilar töldu að væri vert að bjóða félagsmönnum að fara með í atkvæðagreiðslu,” segir Einar Hannes Harðarson, formaður SVG.

Samið var um sérstaka línuuppbót að fjárhæð 120 þúsund krónum til handa sjómönnum á línubátum, og þá var áréttaður sérstakur forgangur á endurskoðun fjarskiptamála, svo fátt eitt sé nefnt.

Einar segir að þrátt fyrir að ekki hafi tekist að leysa úr öllum ágreiningsefnum, þá sé það viss áfangasigur að hafa náð að semja um línuuppbótina.

„Það sem við vorum mjög ósáttir við í þeim samningum sem Sjómannasambandið gerði var að það kom lítið til línubátasjómanna. Við náðum ákveðnu samkomulagi um það hvernig við myndum ná að leysa það vandamál. Það er einn áfangasigur fyrir okkur í Grindavík. Við erum með marga línubátasjómenn og töldum þetta nauðsynlegt,” segir hann.

Kjarasamningurinn fer í atkvæðagreiðslu félagsmanna 14 .desember næstkomandi og ættu niðurstöður að liggja fyrir degi síðar, að sögn Einars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×