Innlent

„Full ástæða til að við bjóðumst til að vera með í ríkisstjórn“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Birgitta Jónsdóttir segir Pírata reiðubúna til viðræðna um mögulega stjórnarmyndun.
Birgitta Jónsdóttir segir Pírata reiðubúna til viðræðna um mögulega stjórnarmyndun. vísir/vilhelm
Birgitta Jónsdóttir segir Pírata reiðubúna til viðræðna um mögulega stjórnarmyndun. Flokkurinn hafi áhuga á mynda ríkisstjórn með öllum flokkum nema ríkisstjórnarflokkunum tveimur; Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Hún segir næstu rökréttu skref að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fái stjórnarmyndunarumboðið.

„Ég rakst aðeins á Katrínu áðan og við spjölluðum stuttlega saman þar sem hún útskýrði að hún ætli að hitta alla flokkana,“ segir Birgitta í samtali við Vísi. Hún segir að næstu skref verði að ræða við þingflokkinn.

„Við buðumst til að styðja minnihlutastjórn, og erum alveg tilbúin til að gera það til að einfalda málin, en mér sýnist á öllu að forsendur séu að breytast,en eigum bara eftir að ræða það við þingflokkinn,” segir hún. „Mér sýnist full ástæða til að við bjóðumst til að vera með í ríkisstjórn,” bætir Birgitta við, aðspurð að hvaða leyti forsendur séu að breytast hjá Pírötum.

Væruð þið til í fimm flokka stjórn undir forystu Vinstri grænna?

„Mér sýnist á öllu að það sé erfitt, bæði fyrir Bjarta framtíð og Samfylkinguna, að vera í ríkisstjórn með svona fáa þingmenn. En aðalatriðið er að ef flokkar geta komið sér saman, ef það er mjög ítarleg aðgerðaráætlun og stefnuskrá þá ætti ekki að vera neitt vandamál. Við höfum alveg áhuga á, þó við séum með minnihlutastjórn, að taka sæti í ríkisstjórn. Eitt útilokar ekki hitt. Við viljum bara setjast niður og ræða málin fyrst,” útskýrir Birgitta, og segir að heilbrigðiskerfið verði algjört forgangsatriði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×