Innlent

Forsetinn fastur í umferð á leið til fundar við Bjarna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni er seinn á fund með Bjarna á Bessastöðum út af hinni týpísku fimm-umferð.
Guðni er seinn á fund með Bjarna á Bessastöðum út af hinni týpísku fimm-umferð. Vísir
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er fastur í umferð á leið til fundar við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á Bessastöðum en fundur þeirra átti að hefjast núna klukkan 17.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu seinkar fundi þeirra því um korter til tuttugu mínútur en forsetinn var í dag á málræktarþingi Íslenskrar málnefndar í Þjóðminjasafninu.

Bjarni sleit stjórnarmyndunarviðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn í dag en tvær vikur eru nú síðan að hann fékk stjórnarmyndunarumboðið frá forseta. Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hófust á föstudag en þær strönduðu í dag á málefnum tengdum sjávarútvegi og ESB.

Ekkert liggur fyrir um það hvað fer fram á fundi þeirra Bjarna og Guðna sem hefst núna á sjötta tímanum, það er hvort að Bjarni skili umboðinu eða tjái forseta að hann vilji freista þess að mynda ríkisstjórn með öðrum flokkum.

Uppfært klukkan 17:25: Bæði Bjarni og Guðni eru mættir á Bessastaði og er fundur þeirra um það bil að hefjast.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×