Innlent

Birgitta: Eðlilegast að Bjarni skili umboðinu og Katrín fái að spreyta sig

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Píratarnir Einar Brynjólfsson, Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy.
Píratarnir Einar Brynjólfsson, Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy. vísir/vilhelm
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að henni finnist eðlilegast að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skili umboði sínu til stjórnarmyndunar og að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fái umboðið frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.

Bjarni sleit í dag stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, en tvær vikur eru síðan Bjarni fékk stjórnarmyndunarumboðið.

„Mér finnst liggja í hlutarins eðli að Bjarni skili umboðinu og að Katrín fái að spreyta sig. Nú er kominn 15. nóvember, Bjarni er búinn að vera með þetta umboð  og hefur rætt við þá flokka sem hann telur sig geta náð saman við þannig að mér sýnist þetta nú vera fullreynt,“ segir Birgitta í samtali við Vísi og bendir á að bæði Píratar og Vinstri græn hafi talað skýrt varðandi það að fara ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Þá segir Birgitta að Píratar hafi aldrei hafnað því að taka þátt í fimm flokka stjórn en þau buðust til þess að styðja við minnihlutastjórn þriggja flokka eftir að þau funduðu með forseta Íslands skömmu eftir kosningar.

„Við höfum aldrei hafnað því að taka þátt í fimm flokka stjórn en bara buðum þetta til að leysa þann hnút sem Viðreisn setti fram. Við höfum aldrei útilokað að vera aðilar að ríkisstjórn og heldur vorum við bara að bjóða upp á leið til að þessi fyrrverandi Panama-ríkisstjórn kæmist ekki aftur til valda,“ segir Birgitta.

Bjarni heldur til fundar við forseta Íslands á Bessastöðum klukkan 17 í dag en hvort hann skili þá stjórnarmyndunarumboðinu liggur ekki fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×