Viðræðurnar hófust formlega á föstudag eftir þreifingar. Gert er ráð fyrir því að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, fái umboðið næst, sem næst stærsti flokkurinn. Hún hafnaði viðræðum við Sjálfstæðisflokk og hefur lýst því yfir að hún vilji mynda stjórn frá vinstri og inn á miðju.
Katrín eða Benedikt fá umboðið
„Nú borgar sig að fullyrða sem minnst. Þeir fóru flatt á því sem spáðu fyrir um bandarísku forsetakosningarnar,“ segir Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði við HÍ þegar Vísir bar þetta undir hann. Hann segir vandi um það að spá hvað forsetinn geri. Tveir stjórnmálaleiðtogar aðrir en Bjarni óskuðu eftir stjórnarmyndunarumboðinu á sínum tíma; Katrín og Benedikt.

Það er í ljósi þess að Píratar og Samfylking höfðu gefið það út að þau gætu hugsanlega stutt minnihlutastjórn VG, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar.
„Samkvæmt þessu, ég geri ráð fyrir því að forsetinn reyni að fara eftir þessu næst þegar hann veitir umboðið, og þá stendur valið milli Katrínar og Benedikts. Það styrkir stöðu Katrínar að hún er með nærst stærsta flokkinn á bak við sig á þingi. En, það virðist vera að forsetinn vilji helst, og skiljanlega, mynda meirihlutastjórn. Og til þess þurfa vinstri flokkarnir náttúrlega að vilja starfa saman, undir forystu einhvers, í ríkisstjórn. Og sú stjórn er ekki komin saman,“ segir Baldur.
Strandaði á sjávarútvegsmálum
Viðræðurnar strönduðu á sjávarútvegsmálum og tjáir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sig um það á Facebooksíðu sinni: „Málefnin réðu för. Náðum ekki þeim árangri í viðræðunum sem nauðsynlegur var, sérstaklega sjávarútvegsmálum og Evrópumálum. Á þeim brotnaði - þess vegna sleit Sjálfstæðisflokkurinn.“

Fagnað á Facebook
Þó Viðreisnarmenn fagni varlega má greina fögnuð með að viðræðurnar hafi siglt í strand meðal þeirra sem ekki mega til þess hugsa að Sjálfstæðisflokkurinn sitji áfram í stjórn. Eins og Vísir hefur greint frá hafa fjölmargir ekki getað leynt óánægju sinni með hugsanlega stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar en óánægjan hefur einkum beinst að Óttari Proppé. Hann hefur verið sakaður um svik og svínarí við vinstri arm stjórnmálanna og kjósendur BF.
Meðal þeirra sem fagna nú á Facebook eru Stefán Pálsson sagnfræðingur sem kemur einmitt inná þetta:
„Ófokk, verð ég þá að hætta að kalla Óttarr Proppé labbakút og drulluháleista og byrja að lofsyngja hann í staðinn? Ojæja...“
Annar sem er ánægður er blaðamaðurinn Jóhann Páll Jóhannsson: „Húrra fyrir Bensa og Óttari. Stóðu í lappirnar og sönnuðu að Sjálfstæðisflokkurinn er of hagsmunatengdur stórútgerðinni til að geta tekið þátt í nauðsynlegum umbótaverkefnum.“

Hugur rithöfundarins Guðmundar Andra Thorsson er einnig hjá Óttari: „Jæja, fyrir hvað ætla áfallagjafarnir nú að úthúða honum Óttari?“
Nokkur umræða er um málið inni á Facebookhóp Pírata og þar velta menn því fyrir sér hvort farið hafi verið offari gegn Óttari? Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, segir í því sambandi: „Þetta gerðist ekki í hliðstæðum veruleika eða tæmdu rými, ég held að viðbrögðin hafi haft mikil áhrif þessa viðræður, stundum er nefnilega hættulegt að chilla og bíða,“ segir Gunnar Hrafn og setur inn broskall. Kjartan Jónsson bendir á að viðbrögðin hefðu getað haft þveröfug áhrif, hann heldur að viðræðunum hafi veri9ð slitið þrátt fyrir þau frekar en vegna þeirra.
„Mögulega, þetta er eitthvað fyrir sagnfræðingana kannski,“ svarar Gunnar Hrafn.