Innlent

Óttarr Proppé: Viðræðurnar strönduðu á ESB og kerfisbreytingum í sjávarútvegi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Óttarr Proppé og Bjarni Benediktsson eiga ekki lengur í stjórnarmyndunarviðræðum.
Óttarr Proppé og Bjarni Benediktsson eiga ekki lengur í stjórnarmyndunarviðræðum. Vísir/Ernir
„Það var auðvitað umræða um ákveðnar kerfisbreytingar og þá bæði spurningin um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB en líka breytingar í sjávarútvegi þar sem var langt á milli manna.“

Þetta segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, aðspurður hvers vegna búið er að slíta stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Óttarr segir að margt gott hafi verið í samtölum flokkanna undanfarna daga.

„Það var margt sem var að ganga ágætlega upp en við vissum fyrir fram að þetta yrði erfið vinna, það lá heilmikið á milli flokkanna,“ segir Óttarr.

Hann kveðst ekki vita hvað gerist næst.

„Þessar stjórnarmyndunarviðræður fóru auðvitað af stað eftir að það voru heilmiklar þreifingar á milli Bjarna og allra flokka þannig að það var nú vitað fyrir fram að þetta yrði dálítið þröngur kostur. Þannig að ég veit ekki hvert framhaldið er, boltinn er væntanlega hjá Bjarna eða forsetanum,“ segir Óttarr.

Hann bætir þó við að hann viti að síðast þegar menn töluðu saman þá voru kostirnir þröngir fyrir Bjarna. Óttarr segir að það sé allavega verkefni stjórnmálaflokkanna að finna leið til að mynda sterka ríkisstjórn úr niðurstöðum kosninganna.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×