Óafsakanlegur næringarskortur Hafliði Helgason skrifar 11. nóvember 2016 07:00 Ekki þarf að fara langt aftur í sögu okkar til þess að nútíminn yrði í samanburðinum tími ofgnóttar og sóunar. Framboð fjölbreyttrar fæðu hefur aldrei verið meira né forsendur til þess að hafa öll hugsanleg næringarefni í fæðunni. Það er kannski til marks um þetta mikla aðgengi okkar að fjölbreyttri fæðu að sprottið hafa upp matarkúrar sem sumir hverjir ganga svo langt að útiloka mikilvæga fæðuflokka úr daglegum kosti. Í slíku ofgnóttarsamfélagi skýtur því skökku við að hópar í samfélaginu búi við næringarskort. Frétt Fréttablaðsins í dag um næringarástand aldraðra sem leggjast inn á spítala er sláandi. Fram kemur í rannsókn sem gerð var árin 2015 og 2016 að tveir af hverjum þremur sem leggjast inn á Landakotsspítala eru vannærðir eða sýna sterk merki slíks. Í fréttinni kemur einnig fram að inni á sjúkrastofnunum geti ástandið haldið áfram að versna. Í samtali við Fréttablaðið segir Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í næringarfræði við HÍ, að kerfið geri í raun ráð fyrir því að aðstandendur aldraðra tryggi nauðsynlegan stuðning og næringu. Almenn þekking á grundvallaratriðum lýðheilsu hefur farið vaxandi á síðustu árum. Flestir sem nálgast miðjan aldur eru fullmeðvitaðir um mikilvægi grunnþátta góðrar heilsu sem eru næring, hreyfing og svefn. Án áreynslu og réttrar næringar minnkar vöðvamassi frá tiltölulega ungum aldri til endaloka. Sumir þættir svo sem beinþéttni ráðast af hegðun á unga aldri, auk erfða. Það er því mikilvægt að fara með góðan forða inn í ellina, en algjörlega nauðsynlegt að viðhalda góðri næringu og eins mikilli hreyfingu og kostur er þegar komið er á efri ár. Það getur á engan hátt talist viðunandi að eldra fólk búi við næringarskort eins og þessi rannsókn gefur til kynna. Það er líka ástæða til að óttast að fæða yngra fólks einkennist um of af hitaeiningaríkum og næringarlitlum mat. Hér er þörf á átaki. Talsverður hópur reiðir sig á mat á vegum opinberra aðila. Það á að vera tryggt að slík fæða uppfylli skilyrði um nauðsynlegan hitaeiningafjölda og næringarefni. Í tilfelli aldraðra þarf að tryggja að nóg sé af byggingarefnum til að viðhalda vöðvamassa og hreyfigetu. Vannært gamalmenni vinnur ekki glatt til baka það tap sem af vannæringunni hefur hlotist. Sá skaði er óbætanlegur í mörgum tilvikum og styttir líf og dregur úr lífsgæðum. Sá kostnaðarauki sem hlýst af því að bæta úr því ástandi sem nú ríkir er smámunir samanborið við skaðann sem af vannæringunni hlýst sem aftur birtist í kostnaði annarra þátta heilbrigðiskerfisins. Þekkingin er fyrir hendi og gnótt matar í landinu. Við höfum enga afsökun fyrir því að tryggja ekki öldruðum nauðsynlega næringu.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hafliði Helgason Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Hvar er mannúðin? Davíð Sól Pálsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Kjaftæði Elliði Vignisson Skoðun Falleinkunn fyrrum forseta Vilhjálmur Þorsteinsson,Viktor Orri Valgarðsson Skoðun
Ekki þarf að fara langt aftur í sögu okkar til þess að nútíminn yrði í samanburðinum tími ofgnóttar og sóunar. Framboð fjölbreyttrar fæðu hefur aldrei verið meira né forsendur til þess að hafa öll hugsanleg næringarefni í fæðunni. Það er kannski til marks um þetta mikla aðgengi okkar að fjölbreyttri fæðu að sprottið hafa upp matarkúrar sem sumir hverjir ganga svo langt að útiloka mikilvæga fæðuflokka úr daglegum kosti. Í slíku ofgnóttarsamfélagi skýtur því skökku við að hópar í samfélaginu búi við næringarskort. Frétt Fréttablaðsins í dag um næringarástand aldraðra sem leggjast inn á spítala er sláandi. Fram kemur í rannsókn sem gerð var árin 2015 og 2016 að tveir af hverjum þremur sem leggjast inn á Landakotsspítala eru vannærðir eða sýna sterk merki slíks. Í fréttinni kemur einnig fram að inni á sjúkrastofnunum geti ástandið haldið áfram að versna. Í samtali við Fréttablaðið segir Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í næringarfræði við HÍ, að kerfið geri í raun ráð fyrir því að aðstandendur aldraðra tryggi nauðsynlegan stuðning og næringu. Almenn þekking á grundvallaratriðum lýðheilsu hefur farið vaxandi á síðustu árum. Flestir sem nálgast miðjan aldur eru fullmeðvitaðir um mikilvægi grunnþátta góðrar heilsu sem eru næring, hreyfing og svefn. Án áreynslu og réttrar næringar minnkar vöðvamassi frá tiltölulega ungum aldri til endaloka. Sumir þættir svo sem beinþéttni ráðast af hegðun á unga aldri, auk erfða. Það er því mikilvægt að fara með góðan forða inn í ellina, en algjörlega nauðsynlegt að viðhalda góðri næringu og eins mikilli hreyfingu og kostur er þegar komið er á efri ár. Það getur á engan hátt talist viðunandi að eldra fólk búi við næringarskort eins og þessi rannsókn gefur til kynna. Það er líka ástæða til að óttast að fæða yngra fólks einkennist um of af hitaeiningaríkum og næringarlitlum mat. Hér er þörf á átaki. Talsverður hópur reiðir sig á mat á vegum opinberra aðila. Það á að vera tryggt að slík fæða uppfylli skilyrði um nauðsynlegan hitaeiningafjölda og næringarefni. Í tilfelli aldraðra þarf að tryggja að nóg sé af byggingarefnum til að viðhalda vöðvamassa og hreyfigetu. Vannært gamalmenni vinnur ekki glatt til baka það tap sem af vannæringunni hefur hlotist. Sá skaði er óbætanlegur í mörgum tilvikum og styttir líf og dregur úr lífsgæðum. Sá kostnaðarauki sem hlýst af því að bæta úr því ástandi sem nú ríkir er smámunir samanborið við skaðann sem af vannæringunni hlýst sem aftur birtist í kostnaði annarra þátta heilbrigðiskerfisins. Þekkingin er fyrir hendi og gnótt matar í landinu. Við höfum enga afsökun fyrir því að tryggja ekki öldruðum nauðsynlega næringu.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu