Innlent

„Við reynum en það er ekkert víst að það takist“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sjómenn leggja niður störf í kvöld ef samningar nást ekki.
Sjómenn leggja niður störf í kvöld ef samningar nást ekki. vísir/vilhelm/ernir
Allt kapp verður lagt á að reyna að afstýra verkfalli sjómanna, sem að óbreyttu hefst klukkan 23 í kvöld. Samninganefndir sjómanna og útvegsmanna koma saman í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan 13.30 í dag.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir ómögulegt að segja til um hvort fundurinn í dag muni bera árangur. „Menn eru bara að tala saman. Það eru svona 50/50 líkur og við reynum, en það er ekkert víst að það takist,“ segir Valmundur, aðspurður hvort hann sé bjartsýnn á að samkomulag náist.

Deiluaðilar áttu tæplega tveggja klukkustunda formlegan fund hjá sáttasemjara í gærkvöldi, eftir fundi fyrr um daginn með baklöndum sínum. Samkomulag náðist um fiskverð, en engir samningar þess efnis hafa verið undirritaðir. Heimildir fréttastofu herma þó að hugmyndum um jöfnun fiskverðs hafi verið tekið vel í báðum fylkingum í gær, en það hefur verið aðal ágreiningsmálið til þessa.

Valmundur vill ekki gefa upp hvað rætt verður á fundinum í dag. „Það er algjört trúnaðarmál. Við erum undir stjórn sáttasemjara og bundnir algjörum trúnaði,“ segir hann. Aðspurður hvort hann hafi áhyggjur af því að lög verði sett á fyrirhugað verkfall, líkt og fyrir sextán árum, segist hann lítið hafa spáð í það, nú verði öll vinna lögð í það að reyna að ná samkomulagi.

„Ég hef bara ekkert spáð í það. Við krefjumst þess bara að fá að semja eins og aðrir,“ segir Valmundur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×