„Ég hef bara gert formanni Sjálfstæðisflokks grein fyrir því að ég telji mjög ólíklegt að viðræður myndu skila árangri,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við Vísi en í frétt Morgunblaðsins í dag er því haldið fram að Vinstri græn hafi hafnað því að taka upp stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.
Katrín segir við Vísi að hún vilji ekki vitna frekar í tveggja manna tal þegar hún er spurð hvort þetta sé endanleg niðurstaða, að Vinstri græn hafni alfarið stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn.
„Ég hef bara gert honum grein fyrir því að ég telji ólíklegt að þær skili árangri,“ segir Katrín. Bjarni sagði sjálfur í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í gær að það væri útséð um samstarf við Vinstri græn eftir samtöl við flokkinn.
Spurð hvert svarið yrði ef Bjarni Benediktsson myndi hringja í hana í dag og biðja hana um að mæta til fundar við sig um meirihlutasamstarf endurtekur Katrín að hún hafi gert Bjarna grein fyrir að hún telji ólíklegt að slíkar viðræður myndu skila árangri.
En þú tekur upp símann ef Bjarni hringir í þig?
„Já, já. Ég svara ávallt Bjarna Benediktssyni,“ svarar Katrín.
Í frétt Morgunblaðsins er því haldið fram að mikill þrýstingur hafi verið á Katrínu Jakobsdóttur innan Vinstri grænna að ræða ekki við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Þrýstingurinn sé að sögn Morgunblaðsins frá ungliðahreyfingu flokksins og grasrót og hafi birst í hótunum um afsagnir úr trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.
Spurð út í þetta segir Katrín að það sé alveg kunnugt að fólk innan Vinstri grænna hafi ekki verið áhugasamt um samstarf, eins og áður hefur komið fram í máli Katrínar.
„Ég hef ekki fengið neinar hótanir,“ segir Katrín. „Ég hef sagt það margoft að það er mjög langt á milli flokka og þess vegna tel ég ólíklegt að viðræður muni skila árangri. Það er staðan.“
Keflavík
Grindavík