Innlent

Katrín: Könnum málefnanlegan grundvöll samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir að viðræður Sjálfstæðisflokksins og VG sem framundan eru um myndun ríkisstjórnar snúist fyrst og fremst um að kanna hvort að grundvöllur sé fyrir ríkisstjórnarsamstarfi á milli flokkanna.

„Í raun og veru er það eina sem liggur fyrir að við förum yfir hvort það sé einhver málefnalegur grundvöllur fyrir samstarfi þessara tveggja flokka,“ segir Katrín í samtali við fréttastofu.

Katrín leiddi viðræður VG, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar um myndun fimm flokka ríkisstjórnar sem sigldu í strand í síðustu viku. Hún segir að VG hafi rætt við flest alla flokka nema Sjálfstæðisflokkinn og því sé vert að kanna þessa leið.

„Það liggur fyrir að það hafa kannski ekki mikil samtöl hins vegar verið á milli þessara tveggja flokka þannig að við erum alveg til í það,“ segir Katrín.

Samtals hafa Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn 31 þingmann og þurfa því annan flokk með sér til að geta myndað ríkisstjórn. Katrín segir ekki tímabært að ræða strax hvaða flokkur eða flokkar það yrðu. Fyrst þurfi að kanna hvort að þessir tveir flokkar geti náð saman um málefnin.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ræddi Katrín við Sjálfstæðisflokkinn um mögulegt samstarf áður en hún skilaði inn stjórnarmyndunarumboði sínu í síðustu viku. Þær viðræður strönduðu á því að ekki kom til greina að Katrínu að setjast niður með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sem þriðja hjólinu.

Mánuður er nú liðinn frá þingkosningunum en Katrín er virðist ekki vera mjög stressuð yfir því að ekki er enn búið að mynda ríkisstjórn.

„Ég held að í sjálfu sér höfum við séð lengri tíma líða frá kosningunum til stjórnarmyndunar þannig að ég er ekki vitund stressuð yfir þessu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×