Innlent

Forseti Íslands upplýstur um viðræður VG og Sjálfstæðisflokks

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frá Bessastöðum þann 25. nóvember síðastliðinn.
Frá Bessastöðum þann 25. nóvember síðastliðinn. Vísir/Anton
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna hafa tjáð forseta Íslands að samkomulag hafi náðst um að kannaður verði möguleiki á samstarfi þessara flokka í ríkisstjórn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta.

„Fari svo að sátt náist um þá niðurstöðu verður í beinu framhaldi leitað viðræðna við aðra stjórnmálaflokka um aðild að þeirri stjórn. Forseti fylgist náið með þróun þessara viðræðna og væntir þess að komist verði að niðustöðu um myndun nýrrar ríkisstjórnar innan skamms.“

Bjarni og Katrín hyggjast funda í dag um mögulega stjórnarmyndun. Í samtali við fréttastofu sagði Bjarni að eftir viðræður sínar við formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar lægi fyrir að slíkur meirihluti yrði tæpur.

„Það varð eiginlega niðurstaða mín og meðal annars eftir samtal við þá að leita leiða til þess að mynda breiðari ríkisstjórn,“ segir Bjarni.

„Ég hef rætt um það við Katrínu Jakobsdóttur hvort við gætum átt samtal um það,“ segir Bjarni. „Ég vænti þess að við getum þá sest niður í dag með nokkur afmörkuð málefni til þess að fara betur yfir. Til þess að sjá hvort að þessir flokkar tveir geti verið einhverskonar kjarni í ríkisstjórn.“

Ekki náðist í Katrínu Jakobsdóttur við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttastofu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×