Innlent

Reyna hvað þeir geta til að ná sátt um sjávarútveg

Andri Ólafsson skrifar
Þingflokkur Viðreisnar fundaði í gær.
Þingflokkur Viðreisnar fundaði í gær. Vísir/Ernir
Formenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar héldu áfram að ræða mögulegt stjórnarsamtstarf flokkanna um helgina. Þeir hittust meðal annars á fundi í gær og fóru yfir stöðuna. Á meðal þess sem formennirnir ræddu var málamiðlunartillaga Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokkksins, í sjávarútvegsmálum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru sjávarútvegsmálin eitt helsta bitbein flokkanna í formlegum viðræðum þeirra skömmu eftir kosningar. Viðreisn og Björt framtíð vilja breytingar á kerfinu en Sjálfstæðismenn ekki. Þingflokkur Viðreisnar hittist í Alþingishúsinu síðdegis í gær og fór yfir stöðuna. Að þeirra ósk var þinghúsinu lokað fyrir fjölmiðlum á meðan fundur stóð yfir og myndatökur ekki leyfðar.

Heimildir Fréttablaðsins herma að á milli flokkanna sé samstaða í stórum dráttum í flestum málum. Hægt væri að skrifa stjórnarsáttmála þeirra á milli á tiltölulega skömmum tíma. Sátt á milli flokkanna sjávarútvegs- og Evrópumálum er hins vegar forsenda fyrir samstarfinu og hún liggur enn ekki fyrir. Heimildarmenn blaðsins segja hins vegar að fyrst stjórnarkreppa vofi yfir sé mögulegt að málamiðlanir verði gerðar sem ekki voru upp á borðum þegar flokkarnir ræddu fyrst saman.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×