Innlent

Vill ekki ríkisstjórn með bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokki

Höskuldur Kári Schram skrifar
Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar segir það ekki vera vænlegan kost að mynda ríkisstjórn með bæði Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Hann telur þó mikilvægt að fara mynda starfhæfa ríkisstjórn í landinu.

Björt framtíð og Viðreisna hafa gengið saman til stjórnarmyndunarviðræðna og ekki stendur til að breyta því þrátt fyrir þá ákvörðun Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands að veita engum einum flokki stjórnarmyndunarumboð.

„Við reiknum ekki með öðru en að halda áfram þéttu samstarfi með Viðreisn,“ segir Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar.

Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar tekur í sama streng. Hann segir þó mikilvægt að mynda starfhæfa ríkisstjórn sem fyrst.

„Það er nú þannig að það fer að verða ansi brýnt að finna málefnagrundvöll með flokkunum og við erum auðvitað til í það áfram en það hefur ekki tekist nógu vel hingað til,“ segir Benedikt.

Hann útilokar hins vegar að mynda ríkisstjórn með bæði Sjálfstæðisflokki og Framsókn.

„Það hefur nú staðið í okkur hingað til og gerir enn. Miðað við stöðuna eins og hún er í dag þá sýnist okkur það ekki vera mjög vænlegt,“ segir Benedikt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×