Munum flugeldana Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 26. nóvember 2016 07:00 Ekki er sjálfgefið að skipulag björgunarstarfs hjá herlausri smáþjóð í risastóru harðbýlu landi sé í lagi. Við eigum því láni að fagna að fjölmennar björgunarsveitir sjálfboðaliða annast öryggi okkar – og gera það prýðilega. Sveitirnar vinna þrekvirki á þrekvirki ofan og spara ríkinu stórfé í hverju útkalli. Björgunarsveitirnar eru ein helsta skrautfjöður Íslands. Þær vinna verk sem hermenn og launaðar sveitir atvinnumanna sinna í nálægum löndum. Íslenskar björgunarsveitir eru umfjöllunarefni í nýjum útvarpsþætti BBC. Þar er ekki farið leynt með aðdáunina á ungu björgunarfólki, sem sjálft aflar fjár til starfsins. Hátt í 500 björgunarsveitarmenn leituðu rjúpnaskyttu á Austfjörðum um síðustu helgi. Allt fór vel í það skiptið. Björgunarfólkinu varð ekki meint af og veiðimaðurinn fannst heill á húfi en kaldur og hrakinn eftir að hafa grafið sig í snjóskafl tvær langar nætur rammvilltur og farsíma- og staðsetningartækjalaus. Fjölmiðlar greindu samviskusamlega frá gangi leitarinnar og þjóðin fékk gleðitíðindin, eins og vera ber, þegar skyttan fannst. Við urðum vitni að hetjudáðum björgunarsveitanna, sem reiða sig á eigin fjáröflun með flugeldasölu og styrkjum frá fólki og fyrirtækjum. Þær þurfa að kaupa tól og tæki og halda starfinu gangandi. Fjölmiðlum er skylt að segja frá sorgum þeirra og sigrum. Það styður vöxt og viðgang sveitanna að fólkið í landinu fái að vita hvað þær gera. Því skaut skökku við þegar rjúpnaskyttan sem heimt var úr helju ásakaði fjölmiðla um ónærgætni. Slíkri ásökun er hvergi hægt að finna stað. Þegar þyrla Gæslunnar lenti og hann steig út á þyrlupallinn við sjúkrahúsið í Reykjavík var sjálfsagt og eðlilegt að taka myndir. Þær sýndu ekkert niðurlægjandi og ekkert ósiðlegt heldur gleðistund, sem deilt var með þjóðinni. Enginn var neyddur í viðtal. Þvert á móti fékk maðurinn sem bjargað var tækifæri til að þakka fyrir sig, sem hann gerði kurteislega. Sýndur var endir sigurgöngu, sem að vísu kostaði tugi milljóna og mikla fyrirhöfn. En enginn sá eftir peningunum. Enginn taldi eftir sér fyrirhöfnina. Sérkennilegt var, að Landspítalinn skyldi taka undir gagnrýni rjúpnaskyttunnar. Fáir kunna betur að nýta sér fjölmiðla til að vekja athygli á bágri aðstöðu sinni en einmitt Landspítalinn. Fjölmiðlar bregðast við þeirra góða málstað. En stundum þykir stjórnmálamönnunum, sem ábyrgð bera á ríkiskassanum, nóg um og fjölmiðlarnir full leiðitamir. Fjölgun ferðamanna að vetrarlagi hefur aukið álag á björgunarsveitir. Því má gera ráð fyrir, að hugmyndir um atvinnumannasveitir fái byr undir báða vængi. Það er góðra gjalda vert. En slíkar ráðagerðir verða að taka mið af því að varðveita og efla það góða starf sem fram fer. Sjálfboðaliðar, sem fá grunnþjálfun í heilbrigðu frístundastarfi barna og unglinga, verða áfram að vera í forystu. Sjálfboðaliðarnir rísa vel undir ábyrgðinni og þau vilja bera hana. Munum flugeldasöluna um áramótin. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Ekki er sjálfgefið að skipulag björgunarstarfs hjá herlausri smáþjóð í risastóru harðbýlu landi sé í lagi. Við eigum því láni að fagna að fjölmennar björgunarsveitir sjálfboðaliða annast öryggi okkar – og gera það prýðilega. Sveitirnar vinna þrekvirki á þrekvirki ofan og spara ríkinu stórfé í hverju útkalli. Björgunarsveitirnar eru ein helsta skrautfjöður Íslands. Þær vinna verk sem hermenn og launaðar sveitir atvinnumanna sinna í nálægum löndum. Íslenskar björgunarsveitir eru umfjöllunarefni í nýjum útvarpsþætti BBC. Þar er ekki farið leynt með aðdáunina á ungu björgunarfólki, sem sjálft aflar fjár til starfsins. Hátt í 500 björgunarsveitarmenn leituðu rjúpnaskyttu á Austfjörðum um síðustu helgi. Allt fór vel í það skiptið. Björgunarfólkinu varð ekki meint af og veiðimaðurinn fannst heill á húfi en kaldur og hrakinn eftir að hafa grafið sig í snjóskafl tvær langar nætur rammvilltur og farsíma- og staðsetningartækjalaus. Fjölmiðlar greindu samviskusamlega frá gangi leitarinnar og þjóðin fékk gleðitíðindin, eins og vera ber, þegar skyttan fannst. Við urðum vitni að hetjudáðum björgunarsveitanna, sem reiða sig á eigin fjáröflun með flugeldasölu og styrkjum frá fólki og fyrirtækjum. Þær þurfa að kaupa tól og tæki og halda starfinu gangandi. Fjölmiðlum er skylt að segja frá sorgum þeirra og sigrum. Það styður vöxt og viðgang sveitanna að fólkið í landinu fái að vita hvað þær gera. Því skaut skökku við þegar rjúpnaskyttan sem heimt var úr helju ásakaði fjölmiðla um ónærgætni. Slíkri ásökun er hvergi hægt að finna stað. Þegar þyrla Gæslunnar lenti og hann steig út á þyrlupallinn við sjúkrahúsið í Reykjavík var sjálfsagt og eðlilegt að taka myndir. Þær sýndu ekkert niðurlægjandi og ekkert ósiðlegt heldur gleðistund, sem deilt var með þjóðinni. Enginn var neyddur í viðtal. Þvert á móti fékk maðurinn sem bjargað var tækifæri til að þakka fyrir sig, sem hann gerði kurteislega. Sýndur var endir sigurgöngu, sem að vísu kostaði tugi milljóna og mikla fyrirhöfn. En enginn sá eftir peningunum. Enginn taldi eftir sér fyrirhöfnina. Sérkennilegt var, að Landspítalinn skyldi taka undir gagnrýni rjúpnaskyttunnar. Fáir kunna betur að nýta sér fjölmiðla til að vekja athygli á bágri aðstöðu sinni en einmitt Landspítalinn. Fjölmiðlar bregðast við þeirra góða málstað. En stundum þykir stjórnmálamönnunum, sem ábyrgð bera á ríkiskassanum, nóg um og fjölmiðlarnir full leiðitamir. Fjölgun ferðamanna að vetrarlagi hefur aukið álag á björgunarsveitir. Því má gera ráð fyrir, að hugmyndir um atvinnumannasveitir fái byr undir báða vængi. Það er góðra gjalda vert. En slíkar ráðagerðir verða að taka mið af því að varðveita og efla það góða starf sem fram fer. Sjálfboðaliðar, sem fá grunnþjálfun í heilbrigðu frístundastarfi barna og unglinga, verða áfram að vera í forystu. Sjálfboðaliðarnir rísa vel undir ábyrgðinni og þau vilja bera hana. Munum flugeldasöluna um áramótin. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun