„Ég skil hana mjög vel,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, um ákvörðun forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, að veita engum leiðtoga stjórnmálaflokks umboð til formlegar stjórnarmyndunar.
Guðni tilkynnti þetta á blaðamannafundi á Bessastöðum nú fyrir hádegi, eftir að hafa átt fund með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, þar sem hún skilaði stjórnarmyndunarumboði sínu sem hún hafði haft í 9 daga.
Birgitta segir þessa ákvörðun forsetans skiljanlega. „Því það liggur ekki fyrir að neinum formanni hafi tekist að ná nógu mörgum að borðinu til að mynda ríkisstjórn. Mér finnst að því mjög skiljanlegt,“ segir Birgitta í samtali við Vísi um málið.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði haft þetta umboð til myndun ríkisstjórnar á undan Katrínu en einnig skilað því eftir að hafa slitið viðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn.
Katrín sleit fyrr í vikunni viðræðum Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar.
Guðni sagði á blaðamannafundinum fyrr í dag að skynsamlegast væri að forystufólk á þingi kanni óformlega hvers konar samstarf sé mögulegt að slíkar viðræður séu þegar hafnar. Áréttaði hann mikilvægi þess að stjórnmálamenn rísi undir þeirri ábyrgð sem lögð er á þeirra hendur og minnti á þá nauðsyn að kalla þing saman. Taldi hann æskilegast að búið verði að mynda ríkisstjórn þegar þing kemur saman.
Spurður hvenær hann vonist eftir því að þing kæmi saman sagðist hann eiga erfitt með að gera sér grein fyrir því en sagði að vonandi yrði það fyrir jól.
Hefur fullan skilning á ákvörðun forseta að veita engum umboð
Tengdar fréttir
Katrín skilaði umboðinu: Flokkarnir þurfi hugsanlega að gera málamiðlanir
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, skilaði stjórnarmyndunarumboðinu á fundi sínum með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á fundi þeirra á Bessastöðum nú klukkan 10.
Forsetinn veitir engum stjórnarmyndunarumboð: "Engin ástæða til taugaveiklunar“
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hefur ákveðið að veita engum tilteknum flokksleiðtoga umboð til stjórnarmyndunarviðræðna.