Menning

Rembingur og spennusaga um tilfinningar

Magnús Guðmundsson skrifar
Sölvi Björn Sigurðsson, rithöfundur og þýðandi, hefur í nægu að snúast í jólabókaflóðinu.
Sölvi Björn Sigurðsson, rithöfundur og þýðandi, hefur í nægu að snúast í jólabókaflóðinu. Visir/Eyþór
Það er bara eitthvert langtímabrjálæði sem verður til þess að maður fer að takast á við svona verkefni,“ segir Sölvi Björn Sigurðsson, þýðandi og rithöfundur, spurður um hvað hafi orðið til þess að hann réðst í verkefni á borð við það að þýða bundin ljóð Arthurs Rimbaud. Í gær var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku þýðingarverðlaunanna og á meðal tilnefndra verka er Uppljómanir og Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud í þýðingum Sölva Björns og Sigurðar Pálssonar.

Sölvi Björn bætir því við að þetta hafi óneitanlega hvílt á honum árum saman. „Ég byrjaði að lesa Rimbaud þegar ég fór til Frakklands árið 1998 en hafði nú eitthvað kynnst þessum ljóðum áður. Ég var að læra frönsku og fannst þetta vera einhver flottasti penni sem ég hafði nokkurn tíma lesið og hann er það ennþá tuttugu árum seinna. Vinur minn var þarna með mér á þessum tíma og einhvern veginn leiddumst við út í það að dunda okkur við það, svona frekar en að horfa á sjónvarpið, að þýða Rimbaud saman. Við kölluðum þetta Rembing um tíma enda var þetta talsvert snúið.

Rimbaud er svo kjarnaður í öllu sem hann skrifar að maður verður að vanda hverja einustu setningu mjög vel eins og hann gerði sjálfur. Það er eiginlega furðulegt til þess að hugsa að jafn ungur maður og hann hafi haft þessa yfirsýn. Þessa evrópsku yfirsýn yfir hugmyndafræðina sem bjó þarna að baki. En einhvern veginn nær hann að búa til heimspekirit sem er skáldskapur og sagnfræðirit sem er skáldskapur og hann gerir það í svo fáum orðum að það er eiginlega ennþá í senn aðdáunarvert og hvatning fyrir mann sjálfan þegar maður skrifar.“

Þýðingar sameina

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskar bókmenntir að fá þýðingar á góðum bókmenntum inn í íslenskt samfélag. Bæði nýjum bókmenntum sem og klassískum verkum á borð við ljóð Rimbaud sem voru ort fyrir meira en hundrað árum síðan. Sölvi Björn tekur undir þetta og segir að þessi ljóð Rimbaud séu einmitt svo tilvalin til þess að ná svo mörgu inn þó seint sé. En ég held að svona bókmenntir kannski lúri innra með fólki sem les mikið og lengi. Við erum náttúrulega fámenn þjóð og það tekur tíma að byggja brúna.“

Út frá mikilvægi þýðinga þá bendir Sölvi Björn á að „þýðing bæði sameinar tvo tíma, maður færir oft eldri bókmenntir inn í nútímann, og svo ryður þetta í burt menningarveggjum og sameinar einhvern veginn hugmyndastrauma sem eru tengdir öllum. Það er eitthvað sammannlegt í besta skáldskapnum sem er ástæðan fyrir því að hann fer yfir á önnur mál.“

Bók um samkennd

En Sölvi Björn er líka með nýja skáldsögu, Blómið, saga um glæp, nú í jólabókaflóðinu. Skyldi þýðingavinnan og þá sérstaklega vinnan við Rimbaud hafa áhrif á þá vinnu? „Já, hann er alltaf með mér. Ég hef nú þýtt svona endrum og eins frá unga aldri og þetta er algjörlega sama vinnan. Það er gott að vita af einhverjum sem styður mann í einsemdinni við skrifin. Einhverjum sem skilur.“

En hvað er Sölvi Björn að takast á við í skáldsögunni? „Þetta er svona spennusaga um tilfinningar. Þetta er bók um missi og langferðina að hamingjunni. Samfundi og fortíðina sem hvílir á bak við hinar hversdagslegu athafnir og hvernig fólk vinnur úr þeim. Og hvernig þeir geta dunið á fyrirvaralaust þegar maður horfist allt í einu í augu við lífið. Það er ekki bara dagurinn í dag heldur margt sem býr að baki þeim degi sem bjó mann til. Þannig að þetta er svona bók um samkennd og það hvernig maður tekst á við það að vera í sambandi við annað fólk.“

Sölvi Björn segir að það sé mikill munur á þeirri vinnu að vera að fást við ljóðið og skáldsöguna. „Ljóðið er mynd sem klárast og tæmir sig en skáldsagan er alltaf stærri en maður sjálfur. Áskorunin felst þá soldið í því að hafa hemil á forminu og hvernig maður mótar allar myndirnar sem heimta að láta framkalla sig og raðar þeim saman þannig að aðrir geti notið.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×