Innlent

Þjóðarpúlsinn: Æ færri ákveða hvaða flokk þeir kjósa meira en mánuði fyrir kosningar

Atli Ísleifsson skrifar
Þegar fólk er spurt hvaða flokkar það vilji að myndi nýja ríkisstjórn voru Vinstri græn (67 prósent) og Björt framtíð (66 prósent) þeir flokkar sem oftast eru nefndir.
Þegar fólk er spurt hvaða flokkar það vilji að myndi nýja ríkisstjórn voru Vinstri græn (67 prósent) og Björt framtíð (66 prósent) þeir flokkar sem oftast eru nefndir. Vísir/Eyþór
Innan við þriðjungur þeirra sem kusu í nýafstöðnum alþingiskosningum hafði tekið ákvörðun meira en mánuði fyrir kosningar um hvað hann ætlaði að kjósa, eða tæp 31 prósent.

Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Þar kemur fram að ríflega fimm prósent tóku ákvörðun þremur til fjórum vikum fyrir kosningar, rúmlega 14 prósent einni til tveimur vikum fyrir kosningar og nær 20 prósent í vikunni áður en kosið var. „Hátt í 30% þeirra sem kusu tóku ekki ákvörðun fyrr en samdægurs og þar af ákváðu nær 17% sig ekki fyrr en í kjörklefanum eða á kjörstað.“

Í kosningunum 2009 höfðu 38 prósent ákveðið hvaða flokk þeir hugðust kjósa mánuði fyrir kosningar, en 57 prósent í kosningunum 2007.

Mikill munur er á því hvenær fólk tók ákvörðun eftir því hvað það kaus, en þeir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn voru líklegastir til að ákveða sig meira en mánuði fyrir kosningar (46 prósent) og þeir sem kusu Bjarta framtíð voru líklegastir til að ákveða sig á kjörstað (34 prósent).

Þegar fólk er spurt hvaða flokkar það vilji að myndi nýja ríkisstjórn voru Vinstri græn (67 prósent) og Björt framtíð (66 prósent) þeir flokkar sem oftast eru nefndir. „Nær 59% nefna Viðreisn og rúmlega 57% Sjálfstæðisflokkinn. Rúm 34% nefna Pírata, tæplega 24% Framsóknarflokkinn og rétt yfir 20% Samfylkinguna,“ segir í tilkynningu frá Gallup.

Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem gerð var dagana 3. til 14. nóvember 2016, en heildarúrtaksstærð var 1.424 og þátttökuhlutfall 59,1 prósent.

Nánar má lesa um niðurstöður könnunarinnar í viðhengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×