Innlent

Benedikt um boð Bjarna um BCD stjórn: „Það freistaði ekki“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar Vísir/Ernir
Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar, segir það ekki hafa freistað sín að ganga í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Bjarni hafði samband við Benedikt í hádeginu síðastliðinn mánudag og bar tilboðið undir hann.

Hann segir það hafa legið í orðum Bjarna að hann væri einungis að bjóða Viðreisn að ganga í samstarf, en ekki Bjartri framtíð sem Viðreisn hefur verið í bandalagi með í stjórnarmyndunarviðræðum. Mbl.is greindi fyrst frá.

„Við vorum í annars konar spjalli við Sjálfstæðisflokkinn á þeim tíma og náttúrulega vel þekkt að við höfum verið í bandalagi við Bjarta framtíð,“ segir Benedikt í samtali við Vísi.

Daginn áður höfðu Benedikt og Bjarni fundað ásamt Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, um mögulegt samstarf flokkanna þriggja. Benedikt segir það ekki hafa freistað að ganga úr bandalaginu við Bjarta framtíð til að taka þátt í ríkisstjórn með sitjandi ríkisstjórnarflokkum.

„Það freistaði ekki, enda væri það mjög úr karakter að vera í einum viðræðum og fara svo að samþykkja þátttöku í allt öðru mynstri.“

Hann segist enn standa við það að Viðreisn fari ekki í samstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.



Sjá einnig: Katrín: Könnum málefnanlegan grundvöll samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn

Benedikt segir jafnframt að flokkurinn muni halda í bandalag sitt við Bjarta framtíð. Hann slær þó ekki út af borðinu að Viðreisn og Björt framtíð ræði við Sjálfstæðisflokk og Vinstri græn, en Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna og Bjarni Benediktsson funduðu í gær um mögulegt samstarf flokkanna tveggja. 

„Við höfum sagt það að við munum halda þessu bandalagi við Bjarta framtíð. Svo þarf náttúrulega alltaf að fara yfir á hvaða forsendum það er. En við værum alveg til í að spjalla við þau.“


Tengdar fréttir

Líkur á samstarfi aukast

Formenn flokkanna ræddust við í gær og þykir ekki ólíklegt að þeir hefji aftur formlegar stjórnarmyndunarviðræður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×