Menning

Komnar frá Amsterdam með tónlist í farteskinu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Helena Basilova og Guja Sandholt á æfingu í Fríkirkjunni. Þær ætla að koma þar fram annað kvöld.
Helena Basilova og Guja Sandholt á æfingu í Fríkirkjunni. Þær ætla að koma þar fram annað kvöld. Vísir/GVA
 „Við erum ekki með alveg hefðbundið aðventuprógramm því þar er ekki einvörðungu íslensk og erlend jólatónlist heldur ætlum við að flytja líka hátíðlegan ljóðaflokk eftir Richard Wagner,“ segir Guja Sandholt mezzó-sópran spurð út í tónleika sem hún heldur í Fríkirkjunni annað kvöld, ásamt hinni hollensk/rússnesku Helenu Basilova píanista. Tónleikarnir hefjast klukkan 20. 

Guja segir ljóðaflokkinn þá tónlist sem oftast heyrist eftir Wagner fyrir utan óperurnar. „Þetta eru fimm mjög fræg ljóð með fallegu og heimspekilegu þema, það fyrsta er um engil og það síðasta um drauma. Þau eru öll skrifuð af Mathilde Wisenbock og tónsett af Wagner en þau tvö voru víst mjög náin en ekki gift. Reynir Axelsson er búinn að þýða ljóðin svo það verður ekkert mál að skilja þau.“

Guja og Helena eru báðar búsettar í Amsterdam í Hollandi og þar vinna þær stundum saman. Guja kveðst hafa búið í tíu ár ytra, þar af sex í Amsterdam en áður í Salzburg og London. Nú er hún sjálfstætt starfandi söngkona og hefur nóg að gera. „En ég er alltaf að horfa heim og langar að verða virkari hér, þessir tónleikar eru liður í því,“ segir hún. „Mér fannst líka stórkostlegt að fá Helenu til að koma hingað sérstaklega til að spila með mér. Hún hefur komið fram víða um heim á sínum ferli og er einn af athyglisverðustu píanistum sinnar kynslóðar í Hollandi. Hún verður bara í fjóra daga á Íslandi en ég ætla að dvelja fram yfir hátíðarnar.“

 Tveir ungir söngvarar sem eru í námi í Listaháskólanum og Tónlistarskólanum í Reykjavík ætla að koma fram með Guju að syngja með henni einn dúett hvor. Það eru Sólveig Sigurðardóttir og Þórhallur Auður Helgason. Bæði eru þau í sönghópnum Fjárlaganefnd sem hefur vakið  athygli að undanförnu.

„Ég hlakka mikið til tónleikanna,“ segir Guja. „Mér finnst æðislegt að fá að syngja hér heima. Við ætlum að lýsa upp kirkjuna með kertaljósum og skapa  hátíðlega stemningu.“



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. desember 2016






Fleiri fréttir

Sjá meira


×