Erlent

Ísraelska stjórnarandstaðan gagnrýnir Netanyahu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Vísir/EPA
Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Ísrael hafa gagnrýnt forsætisráðherra landsins, Benjamín Netanyahu harðlega undanfarna daga fyrir viðbrögð sín við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Í ályktun öryggisráðsins var uppbygging landnemabyggða Ísraela á Vesturbakkanum og austurhluta Jerúsalemborgar gagnrýnd.  

Segja leiðtogar stjórnarandstöðunnar að Netanyahu hafi skaðað hagsmuni landsins með ofsafengnum viðbrögðum sínum undanfarna daga. Síðan ályktunin var samþykkt hefur ríkisstjórn Netanyahu unnið að því að skera niður samvinnu í utanríkismálum milli Ísraels og þeirra landa sem fulltrúa eiga í öryggisráðinu.

Þá hefur Ísrael kallað sendiherra sína heim frá Nýja-Sjálandi og Senegal. Einnig hafa yfirvöld í Ísrael stöðvað þróunarsamvinnuverkefni sem Ísrael átti með Senegal og þá hefur Netanyahu heitið því að draga úr fjárstuðningi Ísraela við hinar ýmsu stofnanir innan Sameinuðu þjóðanna.

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Ísrael hafa sagt að hér sé ekki um neina ákveðna utanríkisstefnu að ræða heldur hreinlega ofsafengin viðbrögð sem ráðist af tilfinningum. Hafa þeir bent á að Ísrael eigi nú þegar nóg af andstæðingum sem vilji einangra landið á alþjóðlegum vettvangi, það sé algjör óþarfi að þarlend stjórnvöld taki þátt í því líka.

Netanyahu hefur varið aðgerðir ríkisstjórnar sinnar og sagt að einu viðbrögðin sem ríkið geti sýnt við ályktuninni séu hörð viðbrögð, einfaldlega vegna þess að framtíð Ísraels sé í húfi.


Tengdar fréttir

Netanyahu segir ályktun Öryggisráðsins svívirðilega

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir það svívirðilegt að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi samþykkt ályktun þar sem kallað er eftir því að Ísraelar stöðvi uppbyggingu frekari landnemabyggða á Vesturbakkanum og austurhluta Jerúsalem.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×