Menning

Ljóð ungskálda og endurbirt efni Sigurðar Óskars Pálssonar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Magnús á bæjarrústum Breiðuvíkur þar sem Sigurður Óskar Pálsson ólst upp í nágrenni Borgarfjarðar eystri.
Magnús á bæjarrústum Breiðuvíkur þar sem Sigurður Óskar Pálsson ólst upp í nágrenni Borgarfjarðar eystri. Mynd/Minnie Eggertsdóttir
Bók sem allir myndu lesa heitir önnur tveggja nýrra bóka hjá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi. Í henni eru fyrstu ljóð 10 ungra austfirskra höfunda. „Skáldin eru á menntaskólaaldri og þetta eru fyrstu ljóðin sem þau fá birt,“ segir Magnús Stefánsson, formaður Félags ljóðaunnenda á Austurlandi og umsjónarmaður útgáfu þess.

Hann segir ungskáldin hafa verið valin í framhaldsskólunum tveimur fyrir austan og fengið tvö helgarnámskeið til að styrkja sig í skáldskapnum og pússa ljóðin.



Myndin á bókarkápu er eftir Katalin Karacsony.
„Myndlistarkennararnir í sömu skólum leituðu til nemenda sinna um tillögu að kápumynd á bókina og fyrir valinu varð mynd eftir ungverska stúlku, Katalin Karacsony sem er skiptinemi í Menntaskólanum á Egilsstöðum,“ segir Magnús.

„Katalin kom í september til landsins og þegar ég hitti hana á degi íslenskrar tungu 16. nóvember spjölluðum við saman á íslensku og skildum fullkomlega hvort annað. Það fannst mér alveg með ólíkindum.“

Þá snúum við okkur að hinni bókinni, Með austangjólunni, eftir Sigurð Óskar Pálsson, skólastjóra og skjalavörð, sem er fyrsta sögu- og frásagnabókin sem félagið gefur út, að sögn Magnúsar. „Efnið hefur birst áður að langmestu leyti, við erum bara að koma því á einn stað,“ upplýsir hann.





Félag ljóðaunnenda á Austurlandi var stofnað árið 1996 og hefur gefið út 30 bækur, að þessum nýju meðtöldum. Þar hafa nær eingöngu birst ljóð þar til nú, nema hvað í ritsafni Guðfinnu Þorsteinsdóttur, sem var fimm binda verk, voru sagnaþættir líka.

Aðalútgáfan hefur snúist um bókaflokkinn Austfirsk ljóðaskáld sem hófst árið 2001. Honum tilheyra nú 16 bækur, að sögn Magnúsar.

„Fyrsta bókin í þeim flokki var eftir Sigurð Óskar. Hún seldist strax upp og við gáfum hana aftur út 2010. Sigurður Óskar var gott ljóðskáld og var sískrifandi, birti greinar í blöðum og tímaritum. Efnið sem við gefum út núna eru smásögur og frásagnir, vel skrifaðar og skemmtilegar. Ég hef verið að lesa upp úr bókinni víða og fengið góð viðbrögð.“



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. desember 2016






Fleiri fréttir

Sjá meira


×