Jón Steinn segir verkfallið koma sér illa fyrir þær fiskvinnslur án útgerðar sem aðilar eru að samtökunum sem og minni fyrirtæki í sjávarútvegi um land allt.
„Við drögumst eiginlega inn í þetta. Við erum hvorki í verkfalli né aðilar að samningsnefnd. Þetta er í raun óhugsandi ástand,“ segir Jón Steinn.Í raun sé ekki hægt fyrir fiskvinnslur að halda úti vinnslu þar sem hráefnið er ekki fyrir hendi.
„Við getum ekkert gert. Það eru þessir smábátar sem eru í gangi og þeir geta ekki róið nema í betra veðri. Það þarf að vera mjög gott veður til að þeir geti allir farið út,“ segir Jón Steinn og bætir því við að margir hafi gripið til uppsagna vegna tekjutaps.

Jón Steinn hvetur samningsaðila til þess að nýta tíma sinn vel.
„Það er skelfilegt að láta tvær heilar vikur falla dauðar niður. Það segir manni það að þeir ætla ekkert að semja heldur bíða bara eftir að ríkisstjórnin setji á þetta lög. Ég get ekki lesið annað út úr þessu. Ég ætla bara að vona að menn grípi ekki til slíkra aðgerða nema að á samninga verði reynt fyrir alvöru áður.“
Næsti fundur deiluaðila er fimmta janúar. Jón Steinn segir að ef ekki verði samið fljótlega eftir það gætu fiskvinnslur orðið gjaldþrota. „Ef þeir ná að klára þetta í vikunni þar á eftir þá ætti þetta að bjargast hjá okkur. Það má ekki dragast mikið lengur,“ segir Jón Steinn.
Sjómenn hafa nú verið í verkfalli frá því fjórtánda desember er þeir felldu kjarasamning. Þeir hafa hins vegar verið samningslausir frá því í ársbyrjun 2011.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.