Menning

Nota ömmu sína og hennar einkamál í skáldskap

Magnús Guðmundsson skrifar
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslensku, er á meðal fleiri fræðimanna sem taka þátt í hádegisspjalli um siðferði í listum á morgun.
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslensku, er á meðal fleiri fræðimanna sem taka þátt í hádegisspjalli um siðferði í listum á morgun. Visir/GVA
Undanfarin ár hafa mörkin milli veruleika og skáldskapar orðið æ óljósari í listalífi landsmanna. Í framhaldi af því hafa vaknað flóknar spurningar um hvort allt sé í raun leyfilegt eða hvort einhvers konar siðferðileg mörk verði og ætti að draga. Af þessu tilefni verður efnt til málþings í Árnagarði á morgun, föstudag kl. 12-13, undir yfirskriftinni Er allt leyfilegt í listum? – hádegisspjall um siðferði í listum.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslensku, Guðrún Baldvinsdóttir bókmenntafræðingur, Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði, Hlín Agnarsdóttir leiklistargagnrýnandi, Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist, og Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ, reifa þessi mál frá ýmsum hliðum í stuttum innleggjum og síðan verður efnt til umræðna. Málstofustjóri verður Torfi Tulinius prófessor.

Dagný Kristjánsdóttir, sem hefur haft veg og vanda af undirbúningi málstofunnar, segir að málstofan sé fyrst og fremst ákveðin viðbrögð við umræðunni sem hefur geisað á netinu og allt um kring. Þessar umræður hafa verið mjög ástríðufullar og persónulegar, jafnvel stórorðar á köflum og okkur langar til þess í Háskólanum að bregðast aðeins við þessu. Að tala aðeins um þetta fyrirbæri, þessi fljótandi mörk á milli hins persónulega og pólitíska eða opinbera.“

Dagný segir að þetta hafi verið eins og einhvers konar tíska á síðustu árum. „Þetta er ekki bara hér, þetta er líka á Norðurlöndunum og víðar þar sem fólk hikar ekki við að nota ömmu sína og hennar einkamál í skáldskap. Viðkvæmustu hluti. Og þetta náttúrulega hefur sínar afleiðingar.“

Dagný bendir á að það hafi vissulega hlaupið mikill hiti í umræðurnar í tengslum við Gott fólk í Þjóðleikhúsinu fyrir skömmu en að það sé þó hvergi nærri eina dæmið. „Þetta kom líka upp í sambandi við Konan við 1000° og smá gusa í kringum Steinar Braga og Jón Gnarr ekki síður. Þetta hefur færst í aukana og spurningin er hvað er í gangi? Það er það sem okkur langar til þess að tala um án þess að grafa okkur ofan í einstök verk heldur reyna að draga skýrar línur. Við verðum þarna úr ólíkum áttum en öll með stutt innlegg því megináherslan verður á samræðu. Við viljum endilega fá viðbrögð og álit fólks en það þarf auðvitað að halda því á málefnalegum grunni.“ Eins og áður sagði verður málþingið í Árnagarði á morgun kl. 12 til 13 og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×