Þátturinn er hluti af gamanþáttaröðinni Urban Myths en sýna átti hann á Sky Arts.
Sky sendi frá sér tilkynningu á föstudag þar sem forsvarsmenn stöðvarinnar sögðust hafa tekið þáttinn sem fjallar meðal annars um Michael Jackson af dagskrá eftir kvartanir frá dóttur hans Paris Jackson.
Sky segir að það hafi aldrei verið ætlunin að móðga einhverja með þessum þætti.
Þátturinn ber heitið Elizabeth, Michael and Marlon en um er að ræða 30 mínútna langan þátt sem segir frá bílferð leikonunnar Elizabeth Taylor, Michael Jackson og leikarans Marlon Brando frá New York til Los Angeles eftir hryðjuverkaárásina á tvíburaturnana 11. september árið 2001.
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Sky hafi fengið fullan stuðning frá Joseph Fiennes um að taka þáttinn af dagskrá.
20 þúsund manns höfðu lagt nafn sitt við áskorun þess efnis að þátturinn yrði tekinn af dagskrá og var eitt helsta umkvörtunarefnið að hvítur leikari hefði verið ráðinn til að leika Jackson, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Michael Jackson lést langt fyrir aldur fram árið 2009, þá aðeins 50 ára gamall.