Rekstur toppliðana í Pepsi-deild karla byggist á því að liðin tryggi sér sæti í Evrópukeppni í knattspyrnu á hverju ári. Þetta segir Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, í knattspyrnu.
Willum tók við KR-ingum í júlímánuði á síðustu leiktíð en þá var liðið með níu stig í fallslag. Undir stjórn Willums fengu KR-ingar 29 stig af 39 mögulegum og tryggðu sér Evrópusæti.
Undirbúningur fyrir komandi leiktíð er hafinn og þar er Evrópusæti lykilatriði til að tryggja rekstrarafkomu félaga á borð við KR og fleiri liða í Pepsi-deildinni.
„Þetta er stóra spurningin í dag. Þetta viðskiptalíkan sem virðist vera komið í gang byggir á því að komast í Evrópusæti,“ segir Willum í samtali við Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamann Stöðvar 2.
„Þá er auðvitað alltaf tilhneiging til þess að kaupa árangur. Kaupa sterkari leikmenn, auka breiddina og þetta er fín lína á milli þess að veita ungum leikmönnum eitthvert brautargengi.“
Hann segir að KR-ingar eigi marga mjög unga og efnilega knattspyrnumenn.
„Þeir verða bara að taka sviðið á réttum forsendum , en það verður alltaf að koma eitthvað út úr unglingastarfinu með, annars lendum við í ógöngum þegar litið er til lengri tíma. Ekki bara hér í Vesturbænum, heldur bara í íslenskum fótbolta.“
Willum: Þetta viðskiptalíkan krefst þess að ná í Evrópusæti
Stefán Árni Pálsson skrifar