Innlent

Sjómenn geta verið mjög lengi í verkfalli

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands. Vísir/Ernir
Formaður Sjómannasambands Íslands segir sjómenn geta verið mjög lengi í verkfalli ef þess þarf. Þeir muni ekki kvika frá sínum kröfum.

Fundur samninganefnda sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í gær var árangurslaus. Þetta var fyrsti fundur í deilunni í tæpar tvær vikur og ekki hefur verið boðað til nýs fundar. Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, sagði deiluna enn vera í mjög hörðum hnút. Þá óskaði hún eftir því að deilendur myndu ekki tjá sig við fjölmiðla um viðræðurnar.

Slá ekki af kröfum

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, sagði fyrir fundinn að ekki yrði kvikað frá kröfum sjómanna.

„Það sem stendur út af er þessi hækkun á olíuverðsviðmiðinu um þrjú prósent, úr 70 í 73 prósent. Og svo krafan okkar um að útgerðin bæti okkur sjómannaafsláttinn. Það er það sem út af stendur,“ segir Valmundur.

Sjávarútvegsráðherra hefur sagt að báðir aðilar þurfi að slá af sínum kröfum. Komið þið til með að gera það?

„Ég held nú að við höfum slegið nóg af okkar kröfum í gegnum tíðina í þessum samningaviðræðum. Menn eru komnir í botninn og þetta er það sem þarf til að klára kjarasamning að mati sjómanna. Þeir sætta sig ekki við neitt minna og þannig er það bara,“ segir Valmundur.

Grjótharðir sjómenn

Verkfallið hefur staðið yfir í rúmar sjö vikur en Valmundur segir sjómenn geta verið mjög lengi í verkfalli ef þess þarf.

„Vegna þess að við erum komin á þann stað núna að krafan á okkur er að við klárum þetta á því sem að menn vilja. Og ef við náum því ekki, hvenær sem það verður, þá bara bíða menn. Ég heyri ekki annað í sjómönnum en að þeir séu grjótharðir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×