Sport

Gunnar heldur áfram að klífa listann hjá UFC

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gunnar á vigtinni fyrir sinn síðasta bardaga.
Gunnar á vigtinni fyrir sinn síðasta bardaga. vísir/getty
Þó svo Gunnar Nelson hafi ekki barist síðan í maí á síðasta ári þá heldur hann áfram för sinni upp styrkleikalista UFC.

Gunnar er nú kominn í níunda sætið á listanum yfir bestu veltivigtarkappanna en það er hans hæsta staða á listanum frá upphafi.

Í mars á síðasta ári féll Gunnar af lista UFC en komst aftur inn og fór upp í tólfta sæti er hann hafði klárað Albert Tumenov með stæl í maí síðastliðnum.

Það er hans síðasti bardagi í UFC. Gunnar hafði á þeim tíma hæst komist í ellefta sæti á listanum. Án þess að berjast hefur Gunnar aftur á móti skriðið upp um þrjú sæti og í níunda sætið.

Ástæðan fyrir þessu er að flestir í kringum hann hafa verið að berjast og margir fallið niður listann. Þeir sem setja saman listann sjá ekki ástæðu til þess að hreyfa mikið við Gunnari á meðan hann berst ekki og hann hefur grætt á töpum annarra.

Jorge Masvidal hoppar upp um heil sjö sæti á nýja listanum eftir að hafa klárað Donald Cerrone með stæl um síðustu helgi. Cerrone er nú í áttunda sæti eða sætinu fyrir ofan Gunnar.

Enn er óljóst hvenær Gunnar stígur næst inn í búrið hjá UFC.



MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×