Menning

Átök í íslenskri listasögu

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Fyrirlestraröðin Átakalínur í íslenskri myndlist er haldin af Listfræðifélagi Íslands. Í dag mun listfræðingurinn Jón Proppé flytja erindi sitt Blátt strik: átökin um abstraktið.

„Þema þessarar fyrirlestraraðar hjá okkur í Listfræðifélaginu eru átök í íslensku listalífi og myndlist. Ég er að taka fyrir nokkuð merkilegt tímabil en það er fimmti áratugurinn – eða frá 1942 til 1952, þegar heilmikið gerðist í íslenskri myndlist. Það komu þarna inn sterkir nýir straumar, bæði með yngra fólki, listamönnum sem fóru í nám eftir seinni heimsstyrjöldina og komu svo heim og svo líka sumir þeirra eldri sem fóru að fást meira við nýstárlega list, jafnvel abstrakt.

Þar urðu harðvítugar deilur bæði á milli listamanna og svo á milli listamanna og sumra pólitíkusa til dæmis, en þeir töldu þetta tómt rugl og að það ætti bara að mála landslag og fallegar myndir. Þannig að þetta er dálítið lykiltímabil í íslenskri myndlist því að það má segja að á þessum tíma taki íslenskir listamenn sér algjört vald yfir eigin listsköpun; þeir fara að þróa nýja myndlist og koma inn með nýjar stefnur í andstöðu við suma innanlands – þeir taka að mörgu leyti mikla áhættu með því.

Undir lok þessa tímabils, 1952, þá kemur hópur ungra listamanna heim úr námi, aðallega í París, og fara að halda sýningar á hreinræktuðum abstraktmyndum og smátt og smátt næstu árin má segja að abstraktið hafi tekið yfir á Íslandi á meðan að eldri myndlistin – landslagið, mannamyndir og svona hafi smátt og smátt horfið eða hætt að vera leiðandi stíll í íslenskri myndlist. Nokkrar lykilpersónur sem koma fram í fyrirlestrinum eru Þorvaldur Skúlason, Nína Tryggvadóttir, Svavar Guðnason, Hörður Ágústsson og fleiri. Þetta eru allt nöfn sem eru með stærstu nöfnum í íslenskri listasögu og sem tóku þátt í þessari ákveðnu byltingu sem varð á þessum tíma,“ segir Jón Proppé um það efni sem hann mun taka fyrir í erindi sínu.

„Þessi fyrirlestur og þessar fyrirlestra­raðir okkar eru leið til að bæði fjalla um mikilvæg atriði í íslenskri listasögu og listalífi almennt og líka að vissu leyti til að kynna fyrir fólki hverslags rannsóknum og störfum við listfræðingar erum að sinna, svo að fólk fái einhverja hugmynd um það og að það geti verið spennandi. Þessir fyrirlestrar hafa verið vel sóttir og það er mjög gaman að halda þá,“ segir Jón að lokum. Fyrirlesturinn verður haldinn í hádeginu í dag í Safnahúsinu Hverfisgötu og er hann öllum opinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×