Innlent

Telur líklegt að lög verði sett á verkfall sjómanna í næstu viku

Birgir Olgeirsson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna. Vísir
Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, á von á því að sett verði lög á verkfall sjómanna í byrjun næstu viku. Guðmundur lét hafa þetta eftir sér á vef félagsins en hann segir í samtali við Vísi að miðað við þá hagsmuni sem nú eru komnir upp með fyrirhugaðar loðnuveiðar og það ástand sem ríkir nú í byggðum landsins að gripið verði inn í deiluna af hálfu stjórnvalda og verkfallið stöðvað með lagasetning.

„Ég held að við séum að nálgast þann tímapunkt að við þurfum að klára þetta,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi en hann segir samninganefndir sjómanna bíða eftir því hvað muni gerast í pólitíkinni í dag.

Kallað hefur verið eftir því að fæðispeningar sjómanna verði gefnir skattfrjálsir en hann segir að ef stjórnvöld muni ekki gera þá breytingu á skattkerfinu verði að setjast niður og velta fyrir sér öðrum möguleikum til að reyna að leysa deiluna.

„Ekki getum við haldið þessari deilu áfram í verkfalli endalaust.“

Deiluaðilar funduðu með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra í gær en þar lagði Þorgerður til að heildstæð greining og skoðun á fæðis- og dagpeningum almennt á vinnumarkaði fari fram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×