Körfubolti

Úrslitaleikirnir í Maltbikar yngri flokka leiknir um helgina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bikarmeistarar Hauka í unglingaflokki kvenna.
Bikarmeistarar Hauka í unglingaflokki kvenna. mynd/kkí
Úrslitaleikirnir í Maltbikar yngri flokka fóru fram í Laugardalshöllinni um helgina.

KR vann öruggan sigur á Tindastóli, 111-73, í unglingaflokki karla. Bæði lið eru gríðarlega sterk en í þeim eru strákar sem hafa spilað nokkur ár í meistaraflokki.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson  var valinn maður leiksins en hann var með myndarlega þrennu; 22 stig, 15 fráköst og 12 stoðsendingar. Þórir varð einnig bikarmeistari með meistaraflokki í gær, annað árið í röð.

Haukar urðu bikarmeistarar í unglingaflokki kvenna eftir sigur á Keflavík, 67-59, í framlengdum leik.

Meirihluti leikmannanna sem tóku þátt í leiknum léku einnig þegar liðin mættust í undanúrslitum í meistaraflokki á miðvikudaginn. Þá hafði Keflavík betur og fór svo alla leið og varð bikarmeistari eftir sigur á Skallagrími í gær.

Þóra Kristín Jónsdóttir var valin maður leiksins en hún var aðeins tveimur stoðsendingum frá því að vera með fjórfalda tvennu. Þóra skoraði 17 stig, tók 11 fráköst, gaf átta stoðsendingar og stal 10 boltum.

Í drengjaflokki varð KR bikarmeistari eftir 114-90 sigur á Stjörnunni.

Andrés Ísak Hlynsson var valinn maður leiksins en hann skoraði 21 stig, tók 14 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í liði KR.

Í 10. flokki drengja hafði Stjarnan betur gegn Þór Ak., 68-59.

Dúi Þór Jónsson var valinn maður leiksins. Dúi Þór, sem er sonur Jóns Kr. Gíslasonar, fyrrverandi landsliðsmanns og -þjálfara, skoraði 31 stig, tók sex fráköst og gaf átta stoðsendingar. Dúi Þór var einnig öflugur í úrslitaleiknum í drengjaflokki þar sem hann skoraði 34 stig.

Í úrslitum í 10. flokki stúlkna vann Keflavík Njarðvík, 48-40.

Keflvíkingurinn Sigurbjörg Eiríksdóttir þótti standa upp úr en hún skoraði 12 stig, tók níu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Í 9. flokki drengja vann Vestri sigur á Val, 60-49, í úrslitaleik.

Hugi Hallgrímsson var valinn maður leiksins. Hann skoraði 18 stig, tók 20 fráköst, gaf fimm stoðsendingar, stal þremur boltum og varði 10 skot.

Nánar má lesa um sigur Vestra með því að smella hér.

Þá varð Grindavík bikarmeistari í 9. flokki stúlkna eftir 36-33 sigur á Keflavík í úrslitaleik.

Una Rós Unnarsdóttir var valin maður leiksins. Hún skoraði tvö stig, tók sjö fráköst, gaf fimm stoðsendingar og stal fjórum boltum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×