Fordæmalausir fordómar fordæmdir Þórlindur Kjartansson skrifar 10. febrúar 2017 00:00 Fyrir tæpu ári síðan byrjaði mjög að bera á því meðal Demókrata í Bandaríkjunum að þeir ættu erfitt með að hemja kátínu sína yfir velgengni Donalds Trump í prófkjöri Repúblikana. Meðal þeirra var útbreidd—og nánast ráðandi—sú skoðun að það væri rétt mátulegt á bölvaðan Repúblikanaflokkinn að þeir kysu yfir sig þessa fáránlegu fígúru. Hann ætti ekki minnsta möguleika á því að vinna í alvörukosningum. Þessi glaðhlakkalega afstaða margra Demókrata stóð mestmegnis óhögguð þangað til langt var liðið á kvöld kjördags þegar í ljós kom að þessi fáránlegi frambjóðandi hefði borið sigur úr býtum.Dramb er falli næst Dagana fyrir kosningar mátti lesa fjölda lærðra útskýringa hjá kosningasérfræðingum þar sem sýnt var fram á að það væri nánast tölfræðilega ómögulegt fyrir Trump að sigrast á kosningavél Hillary Clinton. Margir úr röðum Demókrata voru byrjaðir að einbeita sér að því að núa pólitískum andstæðingum sínum því um nasir að hafa ekki afneitað Trump. En rétt eins og þegar hin hægfara skjaldbaka sigraði fótfráa hérann sem lagði sig við veginn; þá sváfu andstæðingar Trump á verðinum, blístrandi saddir af eigin ágæti og yfirburðum á meðan hið ótrúlega og ómögulega helltist yfir veröldina. Og nú situr heimsbyggðin uppi með þá stöðu að valdamesti maður heims er einstaklingur sem virðist hafa jafnóþroskaðar hugmyndir um vald, eins og sex ára barn—sem heldur að löggan megi setja hvern sem er í fangelsi og búa til þær reglur sem henni finnst sanngjarnt hverju sinni. Og þeir sem fylgst hafa með—allt frá kosningabaráttu til embættistöku—hafa áhyggjur af þeim tuddaskap sem forsetanum virðist svo eðlislægur. Fyrstu vikur Trump í embætti eru ískyggilegar. Ekki nóg með að tilskipanir hans og embættistilnefningar séu áhyggjuefni; í ofanálag hefur hann kirfilega sannað að þeir höfðu rétt fyrir sér sem fullyrtu af skaphöfn og dómgreind frambjóðandans Trump væri engan veginn samboðin svo ábyrgðarmiklu embætti. Nánast daglega hrannast þessar staðfestingar upp og sífellt fleira virðist benda til þess að sérhagsmunaöfl og flokkspólitískir hagsmunir muni koma í veg fyrir að dyntir forsetans mæti teljandi pólitískri fyrirstöðu. Eftir stendur sú von að kerfislægir öryggisventlar bandaríska stjórnkerfisins muni halda aftur af sturluðustu hugmyndunum. Einhverjar vísbendingar eru nú þegar uppi um að svo kunni að vera; þótt það gætu reynst ámátlegar dauðateygjur réttarríkisins ef pólitísk forysta Bandaríkjanna grípur ekki í taumana.Fylgst með í fjarska Hér á Íslandi er fátt sem hægt er að gera. Við fylgjumst vanmáttug með því sem þarna gerist—og vonum kannski innst inni að verða ekki sjálf fyrir skaða af þessum væringum. Sem betur fer virðast íslenskir stjórnmálamenn nánast undantekningarlaust hafa séð í gegnum loddaraskapinn. Í þeirra hópi á Trump sér fáa stuðningsmenn, ef einhverja. Formaður Samfylkingarinnar er einn af þeim sem greinilega hafa áhyggjur af ástandinu. Til þess að auglýsa hrylling sinn hefur hann á Alþingi lagt fram ályktun til þingsályktunar (ásamt sjö öðrum) þar sem „Alþingi fordæmir harðlega tilskipun forseta Bandaríkjanna sem beinist gegn múslimum?…“. Í greinargerð með ályktuninni segir að tilskipunin sé „fordæmalaus og lýsi mannfyrirlitningu, byggist á fordómum og grafi undan mannréttindum og þeim lýðræðislegu gildum sem almennt eru viðurkennd í vestrænum lýðræðisríkjum.“ Þetta er býsna fast að orði kveðið. Það dugir greinilega ekki bara að fordæma tilskipunina heldur er hún fordæmd harðlega—því líklega telja tillöguflytjendur að mjúkleg fordæming sé ólíklegri til þess að skila árangri heldur en harðleg. Nema náttúrlega að tilgangur tillögunnar sé bara alls ekki að hún skili árangri.Samfylkingin lýsir yfir stríði Í alþjóðastjórnmálum (og almennt í sæmilega siðuðum samskiptum) eru til staðar bæði skráðar og óskráðar reglur um hvernig komið er fram við aðrar þjóðir. Það þykir tíðindum sæta ef stjórnvöld eins lands lýsa yfir áhyggjum af ástandi í öðru landi. Verulegar áhyggjur eru auðvitað ennþá alvarlegra orðalag. Ef áhyggjurnar duga ekki þá má búast við því að stjórnvöld „harmi“ ástandið og gangi svo næst jafnvel svo langt að „mótmæla“ því. Fordæmingar í diplómatísku tali eru í raun undanfari stríðsyfirlýsingar. Skyldi formaður Samfylkingarinnar ætla að skilja þann ás einan eftir í erminni—að lýsa hreinlega yfir stríði gegn Bandaríkjunum vegna þessarar ömurlegu tilskipunar sem nú hefur verið gerð óvirk í krafti bandarískra dómstóla? Eða er þessi tillöguflutningur angi af nákvæmlega sama meiði og glaðhlakkaleg viðbrögð bandarískra Demókrata við tilhugsuninni um þá náðargjöf að Trump yrði forsetaframbjóðandi óvinaflokksins? Sæmilega ábyrgum stjórnmálamönnum er vitaskuld fullkomlega ómögulegt að taka undir ályktunardrög Samfylkingarinnar eins og þau eru sett fram. Þetta veit formaður Samfylkingarinnar mætavel. En í stað þess að viðurkenna þá ánægjulegu staðreynd að íslenskir stjórnmálamenn eru nánast algjörlega samhljóma í hryllingi sínum yfir málflutningi og aðgerðum Trump, þá kýs Samfylkingin að egna upp ófrið á Alþingi í þeirri von að geta, á afar ósanngjarnan hátt, spyrt innlenda pólitíska andstæðinga sína við persónu og stefnu Donalds Trump.Pólitískir klækjaleikir Því miður eru ýmsar ískyggilegar blikur á lofti í heimsmálunum um þessar mundir. Mannfyrirlitning, fordómar, valdsdýrkun, einangrunarhyggja og pólitísk hefnigirni eru víða á uppleið. Þetta er alvörumál. Þess vegna eru pólitískir klækjaleikir, eins og er að finna í þessari misráðnu þingsályktunartillögu, ekki bara hallærislegir heldur hættulegir. Með því að reyna að hrekja pólitíska andstæðinga út í horn og skapa með því óþarfar deilur er verið að úthýsa yfirvegun, samstöðu og virðingu úr pólitískri umræðu. Í stað þess að deila málefnalega um það sem fólk er ósammála um þá er lagt upp með að rífast ómálefnalega um málefni sem nánast allir eru sammála um. Alþingi og þjóðinni væri sýnd ágæt virðing ef þessi tillaga til þingsályktunar væri hljóðlega dregin til baka. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórlindur Kjartansson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Fyrir tæpu ári síðan byrjaði mjög að bera á því meðal Demókrata í Bandaríkjunum að þeir ættu erfitt með að hemja kátínu sína yfir velgengni Donalds Trump í prófkjöri Repúblikana. Meðal þeirra var útbreidd—og nánast ráðandi—sú skoðun að það væri rétt mátulegt á bölvaðan Repúblikanaflokkinn að þeir kysu yfir sig þessa fáránlegu fígúru. Hann ætti ekki minnsta möguleika á því að vinna í alvörukosningum. Þessi glaðhlakkalega afstaða margra Demókrata stóð mestmegnis óhögguð þangað til langt var liðið á kvöld kjördags þegar í ljós kom að þessi fáránlegi frambjóðandi hefði borið sigur úr býtum.Dramb er falli næst Dagana fyrir kosningar mátti lesa fjölda lærðra útskýringa hjá kosningasérfræðingum þar sem sýnt var fram á að það væri nánast tölfræðilega ómögulegt fyrir Trump að sigrast á kosningavél Hillary Clinton. Margir úr röðum Demókrata voru byrjaðir að einbeita sér að því að núa pólitískum andstæðingum sínum því um nasir að hafa ekki afneitað Trump. En rétt eins og þegar hin hægfara skjaldbaka sigraði fótfráa hérann sem lagði sig við veginn; þá sváfu andstæðingar Trump á verðinum, blístrandi saddir af eigin ágæti og yfirburðum á meðan hið ótrúlega og ómögulega helltist yfir veröldina. Og nú situr heimsbyggðin uppi með þá stöðu að valdamesti maður heims er einstaklingur sem virðist hafa jafnóþroskaðar hugmyndir um vald, eins og sex ára barn—sem heldur að löggan megi setja hvern sem er í fangelsi og búa til þær reglur sem henni finnst sanngjarnt hverju sinni. Og þeir sem fylgst hafa með—allt frá kosningabaráttu til embættistöku—hafa áhyggjur af þeim tuddaskap sem forsetanum virðist svo eðlislægur. Fyrstu vikur Trump í embætti eru ískyggilegar. Ekki nóg með að tilskipanir hans og embættistilnefningar séu áhyggjuefni; í ofanálag hefur hann kirfilega sannað að þeir höfðu rétt fyrir sér sem fullyrtu af skaphöfn og dómgreind frambjóðandans Trump væri engan veginn samboðin svo ábyrgðarmiklu embætti. Nánast daglega hrannast þessar staðfestingar upp og sífellt fleira virðist benda til þess að sérhagsmunaöfl og flokkspólitískir hagsmunir muni koma í veg fyrir að dyntir forsetans mæti teljandi pólitískri fyrirstöðu. Eftir stendur sú von að kerfislægir öryggisventlar bandaríska stjórnkerfisins muni halda aftur af sturluðustu hugmyndunum. Einhverjar vísbendingar eru nú þegar uppi um að svo kunni að vera; þótt það gætu reynst ámátlegar dauðateygjur réttarríkisins ef pólitísk forysta Bandaríkjanna grípur ekki í taumana.Fylgst með í fjarska Hér á Íslandi er fátt sem hægt er að gera. Við fylgjumst vanmáttug með því sem þarna gerist—og vonum kannski innst inni að verða ekki sjálf fyrir skaða af þessum væringum. Sem betur fer virðast íslenskir stjórnmálamenn nánast undantekningarlaust hafa séð í gegnum loddaraskapinn. Í þeirra hópi á Trump sér fáa stuðningsmenn, ef einhverja. Formaður Samfylkingarinnar er einn af þeim sem greinilega hafa áhyggjur af ástandinu. Til þess að auglýsa hrylling sinn hefur hann á Alþingi lagt fram ályktun til þingsályktunar (ásamt sjö öðrum) þar sem „Alþingi fordæmir harðlega tilskipun forseta Bandaríkjanna sem beinist gegn múslimum?…“. Í greinargerð með ályktuninni segir að tilskipunin sé „fordæmalaus og lýsi mannfyrirlitningu, byggist á fordómum og grafi undan mannréttindum og þeim lýðræðislegu gildum sem almennt eru viðurkennd í vestrænum lýðræðisríkjum.“ Þetta er býsna fast að orði kveðið. Það dugir greinilega ekki bara að fordæma tilskipunina heldur er hún fordæmd harðlega—því líklega telja tillöguflytjendur að mjúkleg fordæming sé ólíklegri til þess að skila árangri heldur en harðleg. Nema náttúrlega að tilgangur tillögunnar sé bara alls ekki að hún skili árangri.Samfylkingin lýsir yfir stríði Í alþjóðastjórnmálum (og almennt í sæmilega siðuðum samskiptum) eru til staðar bæði skráðar og óskráðar reglur um hvernig komið er fram við aðrar þjóðir. Það þykir tíðindum sæta ef stjórnvöld eins lands lýsa yfir áhyggjum af ástandi í öðru landi. Verulegar áhyggjur eru auðvitað ennþá alvarlegra orðalag. Ef áhyggjurnar duga ekki þá má búast við því að stjórnvöld „harmi“ ástandið og gangi svo næst jafnvel svo langt að „mótmæla“ því. Fordæmingar í diplómatísku tali eru í raun undanfari stríðsyfirlýsingar. Skyldi formaður Samfylkingarinnar ætla að skilja þann ás einan eftir í erminni—að lýsa hreinlega yfir stríði gegn Bandaríkjunum vegna þessarar ömurlegu tilskipunar sem nú hefur verið gerð óvirk í krafti bandarískra dómstóla? Eða er þessi tillöguflutningur angi af nákvæmlega sama meiði og glaðhlakkaleg viðbrögð bandarískra Demókrata við tilhugsuninni um þá náðargjöf að Trump yrði forsetaframbjóðandi óvinaflokksins? Sæmilega ábyrgum stjórnmálamönnum er vitaskuld fullkomlega ómögulegt að taka undir ályktunardrög Samfylkingarinnar eins og þau eru sett fram. Þetta veit formaður Samfylkingarinnar mætavel. En í stað þess að viðurkenna þá ánægjulegu staðreynd að íslenskir stjórnmálamenn eru nánast algjörlega samhljóma í hryllingi sínum yfir málflutningi og aðgerðum Trump, þá kýs Samfylkingin að egna upp ófrið á Alþingi í þeirri von að geta, á afar ósanngjarnan hátt, spyrt innlenda pólitíska andstæðinga sína við persónu og stefnu Donalds Trump.Pólitískir klækjaleikir Því miður eru ýmsar ískyggilegar blikur á lofti í heimsmálunum um þessar mundir. Mannfyrirlitning, fordómar, valdsdýrkun, einangrunarhyggja og pólitísk hefnigirni eru víða á uppleið. Þetta er alvörumál. Þess vegna eru pólitískir klækjaleikir, eins og er að finna í þessari misráðnu þingsályktunartillögu, ekki bara hallærislegir heldur hættulegir. Með því að reyna að hrekja pólitíska andstæðinga út í horn og skapa með því óþarfar deilur er verið að úthýsa yfirvegun, samstöðu og virðingu úr pólitískri umræðu. Í stað þess að deila málefnalega um það sem fólk er ósammála um þá er lagt upp með að rífast ómálefnalega um málefni sem nánast allir eru sammála um. Alþingi og þjóðinni væri sýnd ágæt virðing ef þessi tillaga til þingsályktunar væri hljóðlega dregin til baka. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun