Samkeppni fyrst, takk Þorvaldur Gylfason skrifar 23. febrúar 2017 07:00 Ýmis rök hníga enn sem fyrr til einkarekstrar, einkaframtaks þar sem við á og heilbrigðs markaðsbúskapar. Samt hafa gráðugir kapítalistar síðustu ár sennilega gert meira til að grafa undan trú almennings á kapítalismanum en kommúnistum tókst á hundrað árum. Vandinn er ekki bundinn við Ísland en samt kveður rammt að honum hér, að sumu leyti enn frekar en víða erlendis. Í Bandaríkjunum var það viðurkennt vafningalaust að misskipting hefði aukizt enda sýndu opinberar tölur það ótvírætt. Hér heima var annað um að vera. Hér þrætti jafnvel Hagstofa Íslands fyrir aukna misskiptingu fram að hruni og lét sér ekki segjast fyrr en eftir hrun. Nýlega fékk ég ásamt öðrum tölvubréf frá einum helzta virðingarmanni Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum. Þar segir: „Að mínu áliti hefur mjög margt óskynsamlegt verið sagt um þetta svokallaða hrun …“ Tveim línum neðar í sama bréfi var „hrunið“ haft innan gæsalappa.Þrjú skilyrði einkavæðingar Einkavæðing ríkisbanka á jafnan því aðeins rétt á sér að þrem skilyrðum sé fullnægt. Fyrsta skilyrðið er að hafi þeir sem að einkavæðingunni standa áður komið að einkavæðingu sem mistókst, þá þurfa þeir að sýna í orði og verki að þeir skilji hvað fór úrskeiðis og lofa bót og betrun. Þetta skilyrði á skýrt við ekki aðeins um Sjálfstæðisflokkinn nú heldur einnig Viðreisn þar eð hún er skilgetið afkvæmi Sjálfstæðisflokksins og hefur ekki gert neinn ágreining við hann um önnur mál en Evrópumálið. Alþingi samþykkti 2012 að láta rannsaka einkavæðingu bankanna, en rannsóknin er ekki enn hafin. Alþingi samþykkti 2016 sérstaka rannsókn á aðkomu þýzka bankans Hauck & Aufhäuser að einkavæðingu Búnaðarbankans og átti henni að ljúka fyrir árslok 2016, en ekki hefur heldur spurzt til þeirrar rannsóknar. Næsta skilyrði er að erlend samkeppni sé tryggð annaðhvort áður en til einkavæðingar kemur eða a.m.k. með einkavæðingunni. Sé það ekki gert og séu fákeppnisbankar seldir einkaaðilum, þá er ríkið í reyndinni að selja fákeppnisaðstöðu, þ.e. aðstöðu handa einkabanka til að hlunnfara varnarlausa viðskiptavini og gera upp á milli þeirra. Einmitt þetta gerðist 1998-2003. Þess vegna sóttu forustumenn og einkavinir þv. ríkisstjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, svo fast að komast yfir Landsbankann og Búnaðarbankann með afleiðingum sem líða seint úr minni þótt Alþingi reyni að gleyma. Sú staðreynd að Skandinaviska Enskilda Banken í Svíþjóð var kominn á fremsta hlunn með að kaupa ráðandi hlut í Landsbankanum sýnir að hægt er að vekja áhuga útlendinga á íslenzkum bankarekstri. Reynsla Norðmanna bendir til sömu niðurstöðu. Danskir og sænskir bankar reka útibú í dreifðum byggðum Noregs og veita norskum bönkum aðhald. Erlend samkeppni er lykillinn að lækkun vaxta á Íslandi. Þriðja skilyrðið er að tryggt sé með lögum að einkavæðingin nái tilgangi sínum og rétt verð fáist fyrir eignirnar og varnir séu tiltækar til að girða fyrir mistök eða bæta fyrir þau í tæka tíð. Lögbundin endurskoðunarákvæði þurfa að vera til taks komi t.d. á daginn að almannahagur hafi verið borinn fyrir borð. Hér hafa engin slík ákvæði enn verið leidd í lög.Tvær leiðir? Hvernig á maður annars að tala um einkavæðingu banka við þekkta óreiðumenn með langan gjaldþrotaslóða í farangrinum? – menn sem hlupu frá milljarðaskuldum við föllnu bankana. Á maður að láta eins og ekkert hafi í skorizt? Reyna bara að fá þá til að opna augun og sjá ljósið? – eins og ég geri af veikum mætti hér að framan. Eða á maður að láta þá fá það óþvegið? – enda sé lítil von til þess að þeir sjái nokkra ástæðu til að bæta ráð sitt svo lengi sem þeir hafa eins atkvæðis meiri hluta Alþingi og það í krafti stolinna kosninga. Margir þykjast þess fullvissir að Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn ætli sér að „selja“ vinum sínum réttinn til að hegða sér áfram eins og ríki í ríkinu, hlíta dómum Hæstaréttar bara eftir hentugleikum, afskrifa skuldir vel tengdra óreiðumanna eins og þeirra sjálfa, ráðast eins og óargadýr gegn þeim viðskiptavinum sem minna mega sín og halda erlendri samkeppni sem allra lengst í burtu. Þeir eru staðráðnir í að byrja á öfugum enda, segja menn. Þeir vita þó fullvel að hefðu þeir almannahag að leiðarljósi ættu þeir fyrst að greiða götu erlendra banka hingað heim til að tryggja samkeppni og hyggja að því loknu að einkavæðingu enda yrði leyfi til að rýja almenning þá ekki partur af pakkanum. Þeir vita þetta allt og láta sér fátt um finnast. Hvað er þá til ráða? Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Nýtanleg verðmætasköpun um allt land Jóhann Frímann Arinbjarnarson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Gerum betur Hilmar Björnsson Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Við þurfum stjórnmálamenn sem skilja mikilvægi stærstu atvinnugreinar landsins Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir Skoðun
Ýmis rök hníga enn sem fyrr til einkarekstrar, einkaframtaks þar sem við á og heilbrigðs markaðsbúskapar. Samt hafa gráðugir kapítalistar síðustu ár sennilega gert meira til að grafa undan trú almennings á kapítalismanum en kommúnistum tókst á hundrað árum. Vandinn er ekki bundinn við Ísland en samt kveður rammt að honum hér, að sumu leyti enn frekar en víða erlendis. Í Bandaríkjunum var það viðurkennt vafningalaust að misskipting hefði aukizt enda sýndu opinberar tölur það ótvírætt. Hér heima var annað um að vera. Hér þrætti jafnvel Hagstofa Íslands fyrir aukna misskiptingu fram að hruni og lét sér ekki segjast fyrr en eftir hrun. Nýlega fékk ég ásamt öðrum tölvubréf frá einum helzta virðingarmanni Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum. Þar segir: „Að mínu áliti hefur mjög margt óskynsamlegt verið sagt um þetta svokallaða hrun …“ Tveim línum neðar í sama bréfi var „hrunið“ haft innan gæsalappa.Þrjú skilyrði einkavæðingar Einkavæðing ríkisbanka á jafnan því aðeins rétt á sér að þrem skilyrðum sé fullnægt. Fyrsta skilyrðið er að hafi þeir sem að einkavæðingunni standa áður komið að einkavæðingu sem mistókst, þá þurfa þeir að sýna í orði og verki að þeir skilji hvað fór úrskeiðis og lofa bót og betrun. Þetta skilyrði á skýrt við ekki aðeins um Sjálfstæðisflokkinn nú heldur einnig Viðreisn þar eð hún er skilgetið afkvæmi Sjálfstæðisflokksins og hefur ekki gert neinn ágreining við hann um önnur mál en Evrópumálið. Alþingi samþykkti 2012 að láta rannsaka einkavæðingu bankanna, en rannsóknin er ekki enn hafin. Alþingi samþykkti 2016 sérstaka rannsókn á aðkomu þýzka bankans Hauck & Aufhäuser að einkavæðingu Búnaðarbankans og átti henni að ljúka fyrir árslok 2016, en ekki hefur heldur spurzt til þeirrar rannsóknar. Næsta skilyrði er að erlend samkeppni sé tryggð annaðhvort áður en til einkavæðingar kemur eða a.m.k. með einkavæðingunni. Sé það ekki gert og séu fákeppnisbankar seldir einkaaðilum, þá er ríkið í reyndinni að selja fákeppnisaðstöðu, þ.e. aðstöðu handa einkabanka til að hlunnfara varnarlausa viðskiptavini og gera upp á milli þeirra. Einmitt þetta gerðist 1998-2003. Þess vegna sóttu forustumenn og einkavinir þv. ríkisstjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, svo fast að komast yfir Landsbankann og Búnaðarbankann með afleiðingum sem líða seint úr minni þótt Alþingi reyni að gleyma. Sú staðreynd að Skandinaviska Enskilda Banken í Svíþjóð var kominn á fremsta hlunn með að kaupa ráðandi hlut í Landsbankanum sýnir að hægt er að vekja áhuga útlendinga á íslenzkum bankarekstri. Reynsla Norðmanna bendir til sömu niðurstöðu. Danskir og sænskir bankar reka útibú í dreifðum byggðum Noregs og veita norskum bönkum aðhald. Erlend samkeppni er lykillinn að lækkun vaxta á Íslandi. Þriðja skilyrðið er að tryggt sé með lögum að einkavæðingin nái tilgangi sínum og rétt verð fáist fyrir eignirnar og varnir séu tiltækar til að girða fyrir mistök eða bæta fyrir þau í tæka tíð. Lögbundin endurskoðunarákvæði þurfa að vera til taks komi t.d. á daginn að almannahagur hafi verið borinn fyrir borð. Hér hafa engin slík ákvæði enn verið leidd í lög.Tvær leiðir? Hvernig á maður annars að tala um einkavæðingu banka við þekkta óreiðumenn með langan gjaldþrotaslóða í farangrinum? – menn sem hlupu frá milljarðaskuldum við föllnu bankana. Á maður að láta eins og ekkert hafi í skorizt? Reyna bara að fá þá til að opna augun og sjá ljósið? – eins og ég geri af veikum mætti hér að framan. Eða á maður að láta þá fá það óþvegið? – enda sé lítil von til þess að þeir sjái nokkra ástæðu til að bæta ráð sitt svo lengi sem þeir hafa eins atkvæðis meiri hluta Alþingi og það í krafti stolinna kosninga. Margir þykjast þess fullvissir að Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn ætli sér að „selja“ vinum sínum réttinn til að hegða sér áfram eins og ríki í ríkinu, hlíta dómum Hæstaréttar bara eftir hentugleikum, afskrifa skuldir vel tengdra óreiðumanna eins og þeirra sjálfa, ráðast eins og óargadýr gegn þeim viðskiptavinum sem minna mega sín og halda erlendri samkeppni sem allra lengst í burtu. Þeir eru staðráðnir í að byrja á öfugum enda, segja menn. Þeir vita þó fullvel að hefðu þeir almannahag að leiðarljósi ættu þeir fyrst að greiða götu erlendra banka hingað heim til að tryggja samkeppni og hyggja að því loknu að einkavæðingu enda yrði leyfi til að rýja almenning þá ekki partur af pakkanum. Þeir vita þetta allt og láta sér fátt um finnast. Hvað er þá til ráða? Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Við þurfum stjórnmálamenn sem skilja mikilvægi stærstu atvinnugreinar landsins Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir Skoðun
Við þurfum stjórnmálamenn sem skilja mikilvægi stærstu atvinnugreinar landsins Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir Skoðun