Lífið

Guðni Th. um stóra pizzumálið: „Ég get ekki sett lög sem banna fólki að setja ananas á pítsuna sína“

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson mælir með fiskemti á pizzur.
Guðni Th. Jóhannesson mælir með fiskemti á pizzur. Vísir

„Mér finnst ananas góður, bara ekki á pítsu,“ skrifar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í yfirlýsingu á Facebook-síðunni Forseti Íslands þar sem hann tjáir sig stóra „ananas-á-pizzu-málið“.

Vísir fjallaði um heimsókn Guðna Th. í Menntaskólann á Akureyri síðastliðinn fimmtudag. Þar var Guðni spurður af nemendum hvort hann vildi ananans á pizzur en þá sagðist hann ekki vilja sá slíkt á sínar flatbökur og gantaðist með það að ef hann gæti það myndi hann setja lög sem bönnuðu ananans á pizzur.

Í Facebook-færslu sinni í dag áréttar Guðni að hann geti ekki sett lög sem banna fólki að setja ananas á pizzuna-sína.

„Mér finnst gott að hafa ekki þau völd. Forsetar eiga ekki að hafa alræðisvald. Ég myndi ekki vilja gegna þessa embætti ef ég gæti sett lög sem bönnuðu það sem mér mislíkar. Ég myndi ekki vilja búa í þannig landi,“ segir Guðni Th. og endar færsluna á að segja:

„Ég mæli með fiskmeti á pizzu.“

Eftir að Vísir fjallaði um þessi ummæli Guðna Th. í Menntaskólanum á Akureyri vöktu þau gífurleg viðbrögð. Sautján þúsund og sex hundruð manns tóku þátt í könnun Vísis þar sem spurt var hvort ananas ætti heima á pizzu en 60 prósent þeirra svöruðu sögðu svo ekki vera.

Ummælin vöktu ekki bara athygli hér á landi heldur einnig víða um heim þar sem fjallað var um málið í erlendum fjölmiðlum. Til marks um það ákvað Guðni að birta þessa færslu sína bæði á íslensku og ensku.

Á meðal erlendra fjölmiðla sem fjölluðu um málið eru Metro, Esquire, The Lad Bible, Daily Dot og Gizmodo, svo dæmi séu tekin.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×