Sport

Kavanagh: Gunnar lærði af töpunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
John Kavanagh, þjálfari Gunnars Nelson, segir að ef allt fer vel gæti hann fengið titilbardaga fyrir lok ársins.

John Kavanagh hefur þjálfað Gunnar Nelson í um áratug en Írinn er einn hæst skrifaðasti þjálfarinn í blönduðum bardagalistum í dag. Hann hefur alltaf haft tröllatrú á Gunnari og telur enn að hann geti orðið heimsmeistari þrátt fyrir tvö tvö í síðustu fjórum bardögum.

„Hann átti misgóða bardaga á tíma þar sem hann vann og tapaði en þetta breyttist aðeins í síðasta bardaga. Hann er búinn að vera smátíma í burtu en nú hafa hlutirnir líka breyst í veltivigtinni. Það eru menn að hætta og fara í önnur sambönd. Gunna og mér finnst að yfirlýsing á laugardaginn ætti að koma honum í stóran bardaga á móti hátt skrifuðum manni sem gæti komið okkur í titilbardaga fyrir lok árs. Tíminn er núna,“ segir Kavanagh.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kavanagh lýsir því yfir að Gunnar sé á leið að heimsmeistaratitlinum en hvað hefur þá vantað upp á síðustu bardögum?

„Reynsla er stór hlutur. Stundum gleymum við hversu gamall Gunni er og svo kemur hann frá landi sem er ekki þekkt fyrir blandaðar bardagalistir. Hann er frumkvöðull í þessu á Íslandi. Við erum enn þá að læra og bæta okkur. Hann er búinn að tapa tvisvar en það á enn eftir að klára hann með hengingartaki eða rothöggi,“ segir Írinn.

Gunnar kom sterkur til baka eftir töpin sín tvö á móti Rick Story og Demian Maia og það kann Kavanagh að meta.

„Hann lærði mikið af töpunum sem skiptir mig miklu máli sem þjálfari. Ætla menn bara að hætta eða nýta töpin til að læra? Við sáum á bardögunum eftir töpin að hann lærði af þeim og við sjáum frekari dæmi um það á laugardaginn,“ segir John Kavanagh.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu tengdu bardaga Gunnars Nelson og Alan Jouban. Vísir er í London og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af Gunnari og bardagakvöldinu í O2-höllinni á laugardaginn. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).

MMA

Tengdar fréttir

Vonandi titilbardagi hjá Gunnari í lok ársins

John Kavanagh, þjálfari Gunnars Nelson, sér fram á að Gunnar klári Alan Jouban sannfærandi í annarri lotu þegar þeir berjast í London á laugardaginn. Það ætti að tryggja Gunnari stóran bardaga seinna í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×