Menning

Sýningin hrífur fólk og snertir djúpt

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég var við æfingar úti í Gels­en­kirchen í sjö vikur frá miðjum desember en skrapp heim í þrjá daga um jólin,“ segir Hanna Dóra sem einnig kennir í Söngskóla Sigurðar Demetz.
"Ég var við æfingar úti í Gels­en­kirchen í sjö vikur frá miðjum desember en skrapp heim í þrjá daga um jólin,“ segir Hanna Dóra sem einnig kennir í Söngskóla Sigurðar Demetz. Visir/Vilhelm
Verkið gerist 15 árum eftir seinni heimsstyrjöld og fjallar um Lisu, sem ég leik. Hún er með manninum sínum á farþegaskipi á leið til Brasilíu þegar hún hittir Mörtu, sem var í útrýmingarbúðunum í Auschwitz, þar sem Lisa vann sem fangavörður. Það verður til þess að hún neyðist til að rifja þann tíma upp.“ Þannig lýsir Hanna Dóra Sturludóttir mezzosópransöngkona upphafi óperunnar Die Passagierin sem hún leikur í aðra hverja helgi þessar vikurnar. Hún segir verkið krefjandi bæði fyrir flytjendur og áhorfendur.

„Þarna er verið að fást við mannlega þáttinn í þessum hræðilega hluta mannkynssögunnar. Söguþráðurinn er byggður á upplifun Zofiu Posmysz,­ sem var fangi í Auschwitz. Þar var kvenfangavörður sem sýndi manneskjulegri takta en flestir. Það er hún sem ég leik,“ lýsir Hanna Dóra. „Zofia telur sig eiga þeirri konu líf sitt að þakka því hún hjálpaði henni að fá lyf eða læknishjálp en var samt ekkert alsaklaus.“

Hanna Dóra í hlutverki Lisu sem upplifir aftur tímann í Auschwitz. Mynd/Óperuhúsið í Gelsenkirchen
Hanna Dóra kveðst þurfa að sýna talsverða hörku á sviðinu. „Auðvitað vildi ég hafa haft þann kjark að gera ekki ljóta hluti og ég reyni að túlka hlutverkið þannig að það sé áhorfandans að meta hvort ég sé vond eða góð.“

Zofia gerðist blaðamaður og er enn í fullu fjöri, 93 ára, að sögn Hönnu Dóru. „Hún hefur alla tíð unnið að því að minna á hvað gerðist í stríðinu, minna á að við getum fyrirgefið en megum aldrei gleyma. Ég hitti hana á frumsýningunni, það var einstök tilfinning að standa með henni á sviðinu,“ lýsir Hanna Dóra.

Uppsetning Die Passagierin er frumflutningur óperunnar sem þó var skrifuð 1968 af pólska tónskáldinu Weinberg en fyrst flutt í tónleikaformi í Moskvu árið 2006. Flest stórblöð í Þýskalandi hafa fjallað um sýninguna og gefa henni feikigóða dóma. „Þjóðverjar vilja vinna úr fortíðinni og kannski losna smám saman undan því oki sem nasistatíminn lagði á þjóðina,“ segir Hanna Dóra og segir einstakt að upplifa hversu hljóðir og einbeittir áhorfendur séu meðan á sýningu stendur. „Fólk er svo neglt við efnið að bæði í hléi og í lokin líða nokkur andartök áður en það klappar. En þá stendur það upp því sýningin hrífur það og snertir djúpt.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. mars 2017






Fleiri fréttir

Sjá meira


×