Menning

Hún lagði grunn að því sem við erfðum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þau Gísli Örn og Katrín Halldóra hafa bæði stúderað líf og starf söngkonunnar Ellýjar Vilhjálms síðustu tvö árin. Afraksturinn verður frumsýndur í kvöld á Nýja sviði Borgarleikhússins.
Þau Gísli Örn og Katrín Halldóra hafa bæði stúderað líf og starf söngkonunnar Ellýjar Vilhjálms síðustu tvö árin. Afraksturinn verður frumsýndur í kvöld á Nýja sviði Borgarleikhússins. Visir/Eyþór Árnason
Lagið Lítill fugl hljómar um salinn og á sviðinu stendur… Ellý Vilhjálms? – nei, það getur ekki verið þó bæði rödd og útlit bendi til þess, hún féll jú frá árið 1996. Ég er stödd á æfingu í Borgarleikhúsinu. Eftir síðasta lag og dramatísk lokaorð er leikstjórinn Gísli Örn Garðarsson spurður hvernig hann hafi farið að því að endurskapa hina ástsælu söngkonu Ellý Vilhjálms.

„Ég ákvað að gera sýningu um hana og var að leita að einhverri í hlutverkið, það átti meira að segja að fara í gerð sjónvarpsþátta sem hétu Leitin að Ellý. Katrín Halldóra Sigurðardóttir var með einstaklingsverkefni í Leiklistarskólanum sem hét Ellý Vilhjálms og þá var sett handbremsa á leitina miklu, Ellý var fundin. Síðan eru liðin tvö ár. Það er dásamlegt að vinna með Kötu. Það að hún sé lík Ellý í útliti er alger bónus en söng- og leikhæfileikarnir réðu úrslitum.“

Áður kveðst Gísli Örn hafa gengið með hugmynd um að gera sýningu um Vilhjálm Vilhjálmsson söngvara, bróður Ellýjar. „Ég hafði áhuga á Villa Vill sem lést ungur en lét þó eftir sig mikinn arf. Ég vissi hins vegar ekkert um Ellý systur hans fyrr en bókin hennar Möggu Blöndal kom út. Því sneri ég mér að því að gera sýningu um hana en auk hennar koma Raggi Bjarna, Villi Vill, Sigrún Jóns, Svavar Gests og galleríið frá þessum tíma við sögu.“

Gísli Örn segir Ellý hafa orðið fyrstu atvinnudægurlagasöngkonu Íslands þegar hún fékk fastan samning hjá Kristjáni Kristjánssyni, hljómsveitarstjóra KK-sextetts. „Sigrún Jóns var áður að syngja með KK en flutti til Noregs og KK gerði mikla leit að annarri söngkonu, meðal annars í Danmörku, enda voru danshljómsveitir að fylla húsin sex sinnum í viku á þeim árum. Sagan segir að Raggi Bjarna hafi stungið upp á Ellý og svo fór að hún fékk fyrsta íslenska atvinnusamninginn. Hún var brautryðjandi – dægurlagasöngkona sem saumaði kjólana sína sjálf. Ég vildi fjalla um lífsbaráttu listamanns sem lagði grunn að því sem við erfðum og skýrir að vissu leyti af hverju við erum hér í vel kyntu Borgarleikhúsi, með deild þar sem allir búningar eru saumaðir af fólki sem er á launum við það.“

Katrín Halldóra ?á sviðinu sem er eins og hljómsveitarpallur á skemmtistað. Áhorfendur sitja svo við dúkuð borð í salnum.Mynd/Grímur Bjarnason
Gísli Örn skrifaði sjálfur handritið ásamt Ólafi Egilssyni. „Við styðjumst við bókina hennar Möggu og heimildir sem lágu bak við hana. Ellý var dul kona en við erum búnir að hitta fullt af fólki sem kynntist henni. Sýningin segir margt um hana og hennar listamannsþörf en líka um hvernig litið var á konur í hennar bransa enda gafst hún upp gagnvart fordómunum og kom ekki fram í 22 ár, frá árinu 1964 að telja. Lokaorðin eru bein tilvitnun í útvarpsviðtal við hana og eru býsna sláandi.“

Í þessu gengur Katrín Halldóra í salinn og fær sér sæti við borðið, aðeins búin að slaka á eftir æfinguna. „Þetta tekur helling á,“ viðurkennir hún. „Ég syng 28 lög en það er yndislega gaman að fá að leika Ellý og mikill heiður.“

„Við hlustuðum stundum á plötur Ellýjar í byrjun til að finna tóntegundir og á æfingatímabilinu kom fyrir að ég var ekki viss um hvor þeirra væri að syngja: Er Kata að mæma? hugsaði ég – nei, hún er að syngja!“ segir Gísli Örn hlæjandi.

Aðdáun vekur hversu lengi var hægt að halda því leyndu hver færi með aðalhlutverkið. „Það voru allir að giska,“ segir Gísli Örn. „Ég var búinn að heyra Steinunni Ólínu nefnda, Hönsu, Ágústu Evu, Brynhildi, Selmu og Guðrúnu Gunnars – sem allar hefðu örugglega verið frábærar líka en Katrín Halldóra er eins og sköpuð í hlutverkið.“

Spurð hvort þær Ellý hafi verið skyldar svarar Katrín Halldóra brosandi: „Ekki það ég veit. Mamma kannast ekki við það, þó finnst mér amma, mamma og systur hennar líkar henni.“

„Einhvers staðar í keðjunni liggur kannski leyndarmál,“ skýtur Gísli Örn inní.

Að lokum er leikkonan spurð hvort hún eigi eftirlætislag í sýningunni. „Já, Lítill fugl eftir Sigfús Halldórsson er í uppáhaldi, textinn eftir Örn Arnarson er svo fallegur. Það er líka lagið sem Ellý var sjálf ánægðust með, enda var það samið með hana í huga.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. mars






Fleiri fréttir

Sjá meira


×