Sport

„Mikil gredda í Gunnari að fara alla leið“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis og æfingafélagi Gunnars Nelson, segir hann staðráðnari en nokkru sinni fyrr að fara alla leið á toppinn. Þrátt fyrir að hafa ekki barist í tíu mánuði hefur Jón Viðar engar áhyggjur af ryði í búrinu á laugardaginn.

„Það virðist ekki hrjá honum að berjast sjaldan. Hann er yfirleitt mjög ferskur þegar hann kemur í búrið. Það er alltaf eins og hann hafi barist bara fyrir þremur mánuðum síðan. Ég hef engar áhyggjur af þessu,“ segir Jón Viðar.

Gunnar og Jón Viðar æfðu saman í gærkvöldi en á æfingum er það Jón Viðar sem eðlilega leikur eftir hreyfingar Joubans. Jouban er ekki hátt skrifaður í dag en er samt stórhættulegur og getur komist á topplistann með sigri á Gunnari.

„Hann er hættulegur og þá sérstaklega standandi. Gunni er sjálfur að bæta sig með hverjum mánuðinum standandi þannigað  hann mun valda honum miklum vandræðum uppi. Svo ef Gunni nær honum niður vitum við að hann hefur yfirhöndina þar,“ segir Jón Viðar.

Gunnar er aðallega að láta vita af sér með bardaganum á laugardaginn eftir langa fjarveru en stefnan er skýr hjá honum á næstu misserum.

„Við vitum að hann þarf að berjast oftar og planið hjá honum er að berjast þrisvar sinnum á þessu ári. Ég finn alveg að það er óvenjulega mikil gredda í honum núna í að fara alla leið,“ segir Jón Viðar Arnþórsson.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu tengdu bardaga Gunnars Nelson og Alan Jouban. Vísir er í London og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af Gunnari og bardagakvöldinu í O2-höllinni á laugardaginn. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×