Sport

Fengu símtal eftir að Gunnar lýsti því sjálfur yfir að hann vildi berjast

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eftir þrálátar tilraunir umboðsmanna Gunnars Nelson var það eiginlega hann sjálfur sem tryggði sér bardagann á móti Alan Jouban á laugardaginn.

Gunnar Nelson snýr aftur í búrið eftir tíu mánaða fjarveru á laugardaginn þegar hann berst við Bandaríkjamanninn Alan Jouban í O2-höllinni í London. Haraldur Nelson, faðir hans og annar tveggja umboðsmanna, fagnar því að sonurinn sé aftur á leið í bardaga eftir að verða af bardaga í Dyflinni í nóvember í fyrra.

„Það tók alveg á. Það var ömurlegt að missa af aðalbardaga og þurfa að hætta við það og allan spenninginn sem var í Írlandi fyrir því. En svona er þetta. Það tók smá tíma að koma til baka en það gerist á laugardaginn,“ segir Haraldur.

Haraldur og hinn umboðsmaður Gunnars, Bandaríkjamaðurinn Audie Attar, voru búnir að lýsa því yfir að Gunnar vildi berjast í London en viðbrögðin af hálfu UFC voru ekki mikil. Það gerðist ekkert fyrr en Gunnar lét sjálfur vita af sér.

„Kannski höfðu þeir einhverjar áhyggjur af því að Gunni væri ekki orðinn alveg heill í ökklanum. Síðan lýsti Gunni sjálfur því yfir í viðtali að hann vildi berjast í London og þá tveimur dögum seinna fékk ég símtal þar sem UFC vildi endilega setja hann á kortið,“ segir Haraldur.

Þrátt fyrir að erfiðlega gekk að koma Gunnari aftur í búrið að þessu sinni segir Haraldur stöðu sonarsins innan UFC vera góða.

„Í raun og veru held ég að hún hafi ekkert breyst. Við vorum aðeins að spá í þessu þegar að það var ekki haft samband út af London-kortinu en svo voru þeir orðnir mjög spenntir að fá hann inn,“ segir Haraldur Nelson.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu tengdu bardaga Gunnars Nelson og Alan Jouban. Vísir er í London og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af Gunnari og bardagakvöldinu í O2-höllinni á laugardaginn. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×