Gúmmíhamar Magnús Guðmundsson skrifar 13. mars 2017 07:00 Það er eftirsóknarvert að vera ungur – en því miður átta fæstir sig á þeirri staðreynd fyrr en um miðjan aldur. Að vera ungur felur nefnilega líka í sér sitthvað kvíðvænlegt enda framtíðin óráðin og mikið undir í nútímasamfélagi. Það getur því skipt unga fólkið, eins og t.d. krakkana sem eru send í samræmdu prófin, öllu máli að samfélagið hafi skilning á þessari stöðu. Skilji mikilvægi þess að tækifæri og möguleikar framtíðarinnar ráðist ekki í einni óúthugsaðri andrá. Samræmd próf fóru fram í grunnskólum landsins í vikunni að tilstuðlan Menntamálastofnunar. Prófin voru lögð fyrir nemendur í 9. bekk í stað þess 10. með það markmið að gefa nemendum og þá væntanlega einnig skólastjórnendum, kennurum og foreldrum ríflegra svigrúm til þess að bregðast við áður en sótt er um nám í framhaldsskóla. Samkvæmt stofnuninni áttu prófin því að nýtast nemendum til þess að leggja mat á stöðuna sem og stofnuninni til þess að geta búið til tölfræði. En gallar reyndust vera á þessari gjöf Njarðar, eða öllu heldur Menntamálastofnunar, til unga fólksins. Í fyrsta lagi þá er með ólíkindum að nemendur komist að því í gegnum fjölmiðla að þessi próf geta mögulega haft áhrif á stöðu þeirra gagnvart sumum framhaldsskólum. Vandamálið virðist reyndar einkum snúa að takmörkuðum fjölda framhaldsskóla og því umhugsunarefni hvort það sé nauðsynlegt að gera þann vanda að vanda alls árgangsins. En þetta er auðvitað ekki þessu unga fólki boðlegt og ekki heldur foreldrum þess og kennurum sem vinna að hag þess og velferð á hverjum degi. Í öðru lagi er afar sérstakt að sjá það koma í ljós í kjölfar prófanna að ekki tóku allir sama prófið. Hvernig próf geta verið samræmd en ekki eitt og sama prófið, geta eflaust aðeins sérfræðingar Menntamálastofnunar svarað og það á sérdeilis góðum degi. Ef svarið er fólgið í þeirri staðreynd að á Íslandi er markmiðið að grunnskólanám sé einstaklingsmiðað, sem er hið besta mál, þá er samræmt námsmat auðvitað tilgangslaust með öllu. Sigurður Arnar Sigurðsson, stjórnarmaður í Skólastjórafélagi Íslands, benti á þessa staðreynd og það leiðir hugann óneitanlega að því hversu lítið virðist fara fyrir samstarfi við skólastjórnendur og kennara, fólkið sem vinnur með nemendum á hverjum degi. Menntamálastofnun virðist þannig telja sig búa yfir nægilega mikilli þekkingu til þess að engin ástæða sé til þess að tala við fólkið á gólfinu. Fólkið sem virðist þó árlega vera í áfalli yfir starfsháttum stofnunarinnar. Þetta er dálítið eins og að Byggingamálastofnun kæmist einhliða að þeirri niðurstöðu að nú ættu allir húsasmiðir að notast einvörðungu við gúmmíhamra, því af þeim er mælanlega minni slysahætta en af hinum hefðbundna klaufhamri. En kannski á Menntamálastofnun eftir að útskýra þetta allt nánar, þó svo það sé enn og aftur eftir að ósköpin eru gengin yfir. En þá og í framtíðinni væri ekki úr vegi fyrir stofnunina að hafa í huga orð hugsuðarins Voltaire sem sagði svo ágætlega: „Það sem verður skilið á marga vegu á ekki skilið að verða útskýrt.“Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. mars. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Guðmundsson Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Það er eftirsóknarvert að vera ungur – en því miður átta fæstir sig á þeirri staðreynd fyrr en um miðjan aldur. Að vera ungur felur nefnilega líka í sér sitthvað kvíðvænlegt enda framtíðin óráðin og mikið undir í nútímasamfélagi. Það getur því skipt unga fólkið, eins og t.d. krakkana sem eru send í samræmdu prófin, öllu máli að samfélagið hafi skilning á þessari stöðu. Skilji mikilvægi þess að tækifæri og möguleikar framtíðarinnar ráðist ekki í einni óúthugsaðri andrá. Samræmd próf fóru fram í grunnskólum landsins í vikunni að tilstuðlan Menntamálastofnunar. Prófin voru lögð fyrir nemendur í 9. bekk í stað þess 10. með það markmið að gefa nemendum og þá væntanlega einnig skólastjórnendum, kennurum og foreldrum ríflegra svigrúm til þess að bregðast við áður en sótt er um nám í framhaldsskóla. Samkvæmt stofnuninni áttu prófin því að nýtast nemendum til þess að leggja mat á stöðuna sem og stofnuninni til þess að geta búið til tölfræði. En gallar reyndust vera á þessari gjöf Njarðar, eða öllu heldur Menntamálastofnunar, til unga fólksins. Í fyrsta lagi þá er með ólíkindum að nemendur komist að því í gegnum fjölmiðla að þessi próf geta mögulega haft áhrif á stöðu þeirra gagnvart sumum framhaldsskólum. Vandamálið virðist reyndar einkum snúa að takmörkuðum fjölda framhaldsskóla og því umhugsunarefni hvort það sé nauðsynlegt að gera þann vanda að vanda alls árgangsins. En þetta er auðvitað ekki þessu unga fólki boðlegt og ekki heldur foreldrum þess og kennurum sem vinna að hag þess og velferð á hverjum degi. Í öðru lagi er afar sérstakt að sjá það koma í ljós í kjölfar prófanna að ekki tóku allir sama prófið. Hvernig próf geta verið samræmd en ekki eitt og sama prófið, geta eflaust aðeins sérfræðingar Menntamálastofnunar svarað og það á sérdeilis góðum degi. Ef svarið er fólgið í þeirri staðreynd að á Íslandi er markmiðið að grunnskólanám sé einstaklingsmiðað, sem er hið besta mál, þá er samræmt námsmat auðvitað tilgangslaust með öllu. Sigurður Arnar Sigurðsson, stjórnarmaður í Skólastjórafélagi Íslands, benti á þessa staðreynd og það leiðir hugann óneitanlega að því hversu lítið virðist fara fyrir samstarfi við skólastjórnendur og kennara, fólkið sem vinnur með nemendum á hverjum degi. Menntamálastofnun virðist þannig telja sig búa yfir nægilega mikilli þekkingu til þess að engin ástæða sé til þess að tala við fólkið á gólfinu. Fólkið sem virðist þó árlega vera í áfalli yfir starfsháttum stofnunarinnar. Þetta er dálítið eins og að Byggingamálastofnun kæmist einhliða að þeirri niðurstöðu að nú ættu allir húsasmiðir að notast einvörðungu við gúmmíhamra, því af þeim er mælanlega minni slysahætta en af hinum hefðbundna klaufhamri. En kannski á Menntamálastofnun eftir að útskýra þetta allt nánar, þó svo það sé enn og aftur eftir að ósköpin eru gengin yfir. En þá og í framtíðinni væri ekki úr vegi fyrir stofnunina að hafa í huga orð hugsuðarins Voltaire sem sagði svo ágætlega: „Það sem verður skilið á marga vegu á ekki skilið að verða útskýrt.“Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. mars.