Innlent

Læknaráð lýsir yfir áhyggjum vegna Landspítalans

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. vísir/vilhelm
Stjórn læknaráðs Landspítala lýsir yfir áhyggjum af húsnæðismálum og umhverfi spítalans. Grípa verði til þjóðarátaks svo unnt verði að leysa þennan vanda með markvissari skipulagsvinnu innan heilbrigðiskerfisins í heild sinni ásamt auknum fjárveitingum.

Í ályktun ráðsins segir að mikið álag hafi verið á læknum og öðru starfsfólki Landspítalans ásamt viðvarandi og vaxandi skorti á sérhæfðu starfsfólki til hjúkrunar og rannsóknartengdrar þjónustu. Þessu til viðbótar berist fréttir af ónýtu og jafnvel heilsuspillandi rannsóknarhúsum sem starfsfólk hafi þurft að búa við á undanförnum árum.

Læknaráð telur of langt í að nýtt húsnæði verði tekið í gagnið, en áætlað er að það verði tekið í notkun árið 2023. Er því hvatt til þess að skipulagsvinnu, áætlunum, útboðum og framkvæmdum verði flýtt eins og kostur sé.

„Niðurstaða síðustu skoðunar á rannsóknarhúsum Landspítalans kallar jafnframt á skjót viðbrögð og auknar fjárveitingar til viðhalds og endurnýjunar á gömlu og úr sér gengnu húsnæði. Velferð og heilsa starfsmanna Landspítalans verða að vera í forgangi, ekki síður en aðbúnaður sjúklinga,“ segir í ályktun stjórnar læknaráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×