Innlent

Viðbúnaðarstig aukið: Töluverðar líkur á að fuglaflensan berist til landsins

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Viðbúnaðarstig hefur verið hækkað.
Viðbúnaðarstig hefur verið hækkað. vísir/eyþór
Viðbúnaðarstig vegna varna gegn fuglaflensu hér á landi hefur verið auki. Taldar eru töluverðar líkur á að afbrigði fuglaflensuveirunnar sem nú geisar í Evrópu berist hingað til lands og að alifuglar smitist af veirunni.

Aukið viðbúnaðarstig þýðir að allir fuglar í haldi þurfi tímabundið að vera haldnir í yfirbyggðum gerðum þar sem villtir fuglar komast ekki inn í eða í fuglaheldum húsum, að því er segir í tilkynningu frá Matvælastofnun. Starfshópur á vegum stofnunarinnar hefur metið ástandið og telur töluverðar líkur á að veiran berist með farfuglum sem nú eru farnir að streyma til landsins.

„Í þeim faraldri sem geisar í Evrópu nú er smit frá villtum fuglum talin vera megin smitleiðin í alifugla. Það er því hætta á að alifuglar hér á landi smitist af þeim farfuglunum sem koma frá sýktum svæðum, sér í lagi þeir sem haldnir eru utandyra og þar sem smitvörnum er ábótavant,“ segir í tilkynningunni.

Afleiðingar sjúkdómsins eru alvarlegar, þar sem stór hluti fuglanna getur drepist og fyrirskipa þarf aflífun á öllum fuglum á búi sem fuglaflensa greinist á, auk ýmis konar takmarkana sem leggja þarf á starfsemi á stóru svæði umhverfis viðkomandi bú.

Ekki er talin vera smithætta fyrir fólk af þessu afbrigði fuglaflensuveirunnar og ekki stafar smithætta af neyslu afurða úr alifuglum. Það er óvíst hvað aukið viðbúnaðarstig mun vara í langan tíma en starfshópurinn endurmetur smithættuna reglulega.

Óvíst er hvað aukið viðbúnaðarstig mun vara í langan tíma en starfshópurinn endurmetur smithættuna reglulega. Birtar hafa verið reglur um smitvarnir, sem nálgast má á vef Matvælastofnunar.

Afbrigðið, H5N8, hefur meðal annars greinst á þeim slóðum sem íslenskir fuglar halda sig að vetri til.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×